Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:32:56 (5661)

2001-03-13 19:32:56# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:32]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Samkvæmt frv. á að leggja ákveðið mat á þá sem eignast meira en 10% hlut. Þar kemur inn í t.d. þekking og atvinnusaga umsækjenda. Undir þetta ákvæði falla lögaðilinn sjálfur, t.d. ef þetta er lögaðili, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóri o.s.frv. Ef t.d. lífeyrissjóður ætlaði sér að fjárfesta fyrir meira en 10%, þyrftu væntanlega allir aðilarnir að vera skotheldir. Ef t.d. erlendur aðili, stór banki, ætlar að fara að fjárfesta í íslensku atvinnulífi, leggur hann það í hættu að einhverjir íslenskir embættismenn dæmi hann vanhæfan. Ég hygg að hann mundi aldrei leggja í þá áhættu, hafandi ekki meira upp úr krafsinu en íslenski markaðurinn hefur gefið. Ég hygg því að þetta ákvæði muni hindra það að stórir erlendir aðilar láti sér detta í hug að fjárfesta í íslenskum bönkum.

Auk þess á að skoða þekkingu og reynslu sem er algjörlega opið. Þarf maðurinn að hafa háskólapróf upp á þekkinguna? Hefur stjórnarmaður í City Bank t.d. þekkingu og reynslu af íslensku landsbyggðapoti? Ég hygg að þetta muni takmarka mjög mikið eftirspurn útlendra aðila til að kaupa íslenska banka. Svo er það spurningin: Hvað gerist þegar barn erfir 15% hlut í Landsbankanum? Það hefur ekki þekkingu eða reynslu. Má það þá ekki eiga, neyðist það til að selja hlutinn, eða hefur það ekki atkvæðisrétt?

Það eru sem sagt mjög margar spurningar sem vakna. Mér finnst það undarlegt að á sama tíma og við erum að ræða um að selja bankana fyrir eins hátt verð og hægt er sé lagt fram frv. sem takmarkar og eyðileggur það verð.

Svo er það spurningin: Hvað er eiginlega varasamt við meira en 10% eignarhlut?