Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 19:35:02 (5662)

2001-03-13 19:35:02# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[19:35]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. geri nú óþarflega mikið úr þessu ákvæði og að það sé jafnvarhugavert og hann vill vera láta.

Mig langar að lesa örlítið, með leyfi forseta, upp úr greinargerð með frv. Það er efst á bls. 15, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 2. tölul. skal hafa hliðsjón af því hver þekking og reynsla umsækjenda er. Æskilegt er að stærstu hluthafar viðskiptabanka hafi til að bera þekkingu á fjármálastarfsemi og geti þannig stuðlað að heilbrigðum og traustum rekstri þeirra. Með þessu er hins vegar ekki að því stefnt að girða fyrir að aðrir en sérfróðir aðilar um fjármálastarfsemi eignist virkan eignarhlut í viðskiptabönkum. Í því sambandi skal á það bent að skv. 7. mgr. getur Fjármálaeftirlitið lagt fyrir umsækjendur að tilnefna einstaklinga, sem Fjármálaeftirlitið metur hæfa, sem fulltrúa sína í bankaráð.``

Ég geri mér alveg grein fyrir því að margar spurningar vakna í sambandi við þetta frv. og ég veit að heilmikil vinna er fram undan í hv. efh.- og viðskn. í sambandi við það vegna þess að þetta kallar á dálítið nýja hugsun. En hugsunin er sú að það sé sem sagt virkt eftirlit með þeim sem eiga stóran hlut í banka vegna þess að hægt er að viðhafa ákveðna skemmdarstarfsemi og það er það sem við ætlum að koma í veg fyrir.

En ég get alveg tekið undir það að þetta frv., verði það að lögum, tryggir í sjálfu sér ekki það sem við höfum fram að þessu kallað dreifða eignaraðild. Það tryggir hana ekki eins vel, og það má kannski segja eins vel eða hvað, en hún tryggir hana a.m.k. á allt annan hátt en það frv. sem hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa hér lagt fram. En gallinn á því frv. er náttúrlega sá að hægt er að ná yfirráðum með því að fara svolítið fram hjá reglunni.