Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 20:12:35 (5665)

2001-03-13 20:12:35# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[20:12]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við ræðum það frv. sem fylgir raunverulega frv. sem við ræddum um fyrr í dag um að selja hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka sem er breyting á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Eins og fram hefur komið í umræðunni í dag hafa þeir fulltrúar og þingmenn Samfylkingarinnar sem hér hafa talað lagt mjög mikið upp úr því að þegar verið er að selja ríkiseignir séu allar leikreglur skýrar í þessu efni og að tryggt sé eins og kostur er að sala ríkiseigna leiði ekki til fákeppni, einokunar eða samþjöppunar á valdi en Samfylkingin telur eðlilegt að selja ríkisfyrirtæki sem eru í samkeppnisrekstri og sem uppfylla ákveðin skilyrði sem við höfum farið hér yfir í dag.

Þess vegna er þetta síðara frv. hæstv. ráðherra mikilvægt en með þeim fyrirvara þó, herra forseti, að við teljum að það sé langt í frá fullnægjandi til að uppfylla þau skilyrði sem við teljum nauðsynlegt að hafa uppi við söluna á bönkunum. Það er vissulega virðingarverð viðleitni að skerpa þannig á lagaákvæðum að því er varðar Fjármálaeftlitið, að þeir hafi lagastoð í því að fylgja eftir og skoða ef um virkan eignarhlut er að ræða eins og nefnt er í þessu frv. en þar er átt við eignarhlut sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.

Við höfum líka viljað skoða fleiri þætti til að hafa girðingarnar sem traustastar í þessu. Vissulega verður að líta til þess, eins og hæstv. ráðherra fór yfir, að við séum þó ekki að setja girðingarnar með þeim hætti að þær séu mjög samkeppnishamlandi.

Í fyrsta lagi vil ég rifja upp það sem ég fór yfir í dag og fram kemur í fyrra frv. ráðherrans sem skiptir máli fyrir það sem við ræðum hér í þessu síðara frv. að í töflu á bls. 16 í fyrra frv. ráðherrans um sölu á bönkunum kemur alveg skýrt í ljós hve samþjöppunin er mikil í bankakerfinu samanborið við aðrar þjóðir. Þar er tekinn samanburður af tólf þjóðum og lagt mat á hve eignarhlutinn er stór í bönkum í þessum löndum miðað við að teknir séu í fyrsta lagi fimm stærstu bankarnir sem hundraðshluti af heild og síðan tveir stærstu bankarnir líka sem hundraðshluti af heild. Þá finnst mér koma mjög athyglisvert í ljós sem sýnir raunverulega nauðsyn þess sem við erum að kalla eftir í Samfylkingunni, þ.e. að setja upp traustar girðingar að því er varðar eignarhlutann og tryggingar eins traustar og við getum fyrir því að ekki verði um að ræða meiri samþjöppun en er á þessum markaði.

[20:15]

Þar kemur í ljós að ef tekið er mið af fimm stærstu bönkunum sem hundraðshluta af heild erum við í þriðja sæti þar sem samþjöppunin er mest af tólf þjóðum og það er ekki svo lítið, herra forseti. Þegar tekið er mið af samþjöppun þegar í hlut eiga tveir stærstu bankar í hverju landi fyrir sig sem hundraðshluti af heild þá erum við hvorki meira né minna, herra forseti, en í öðru sæti af tólf þjóðum á eftir Portúgal sem er með stærsta samþjöppunarhlutfallið þegar tveir bankar eru teknir saman. Þetta, herra forseti, sýnir það sem Samkeppnisstofnun hefur bent á í samantekt sinni á áliti samkeppnisráðs vegna hugmynda sem voru uppi um samruna Landsbankans og Búnaðarbanka Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Íslenskur fjármálamarkaður ber nú þegar mörg einkenni fákeppni. Þjónustan er í flestum tilvikum einsleit, keppinautar eru fáir og verðlagning er gagnsæ. Þegar um fákeppnismarkað er að ræða, kann sjálf markaðsgerðin að gera það fýsilegt fyrir fyrirtæki á viðkomandi markaði að taka tillit hvert til annars og halda samkeppni í lágmarki enda þótt beinu samkomulagi þeirra þar um sé ekki til að dreifa. Sameiginleg markaðsráðandi staða gerir fyrirtækjum kleift að samræma markaðsstefnu sína og starfa að verulegu leyti án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina eða neytenda. Hættan á þessu tvennu, þ.e. beinu samráði eða samhæfðri hegðan á markaði, er ástæða þess að samkeppnisyfirvöldum er heimilað að grípa til íhlutunar vegna samruna í slíkum tilvikum.``

Þarna kemur alveg ótvírætt fram, herra forseti, að þegar eru fyrir á fjármálamarkaði mörg einkenni fákeppni og einsleit þjónusta, eins og þeir segja. Þeir skýra þetta nokkuð nánar, þeir segja, með leyfi forseta:

,,Að því er varðar banka og önnur fyrirtæki á fjármálamarkaði, verður að hafa í huga að heilbrigt markaðsumhverfi í fjármálastarfsemi hefur mikla þýðingu fyrir atvinnulífið í heild. Ef viðskiptakjör í fjármálageiranum, t.d. í formi þjónustugjalda, vaxtamunar og þóknunar á verðbréfum, eru óhagstæð bitnar það jafnt á neytendum og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Stefna innlánsstofnana í útlánum getur einnig haft áhrif á annað atvinnulíf. Reynsla erlendis frá bendir til þess, að bankar sem starfa á samþjöppuðum mörkuðum greiði viðskiptavinum sínum lægri innlánsvexti en bankar þar sem samkeppni nýtur við og taki hærri vexti af lánum til lítilla fyrirtækja. Þá er hagkvæmni oft minni í rekstri þeirra banka sem starfa á mörkuðum þar sem samkeppni er lítil, enda er þá minni hvati til að hagræða í rekstrinum.``

Hérna er auðvitað verið að lýsa íslenskum fjármálamarkaði, t.d. hærri vextir af lánum til lítilla fyrirtækja. Það sama gildir um einstaklinga að vaxtakjör eru verri og hærri vextir fyrir þá sem hafa minni tekjur.

Fleira mætti nefna sem er áhugavert og þar er einmitt tekið til greiðslumiðlunar og Reiknistofu bankanna og fjölgreiðslumiðlunar og greiðslumiðlunar almennt, sem er hluti af því sem verður auðvitað í sölu í þessum bönkum núna, og þar er einmitt talað um að á greiðslumiðlunarmörkuðunum sé mikil fákeppni. Þar stendur orðrétt, herra forseti:

,,Samþjöppun er almennt séð mjög mikil á þessum mörkuðum og eykst umtalsvert með fyrirhuguðum samruna.`` --- Mikil á hvaða mörkuðum? Það er á markaði fyrir útlán, greiðslumiðlunarmörkuðum og markaði fyrir verðbréf og gjaldeyrisviðskipti.

Þessu vildi ég halda til haga hér, herra forseti, og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki líka þegar verið er að auka við þau tæki sem Fjármálaeftirlitið hefur til þess að fylgjast með þessum virka eignarhluta, ef hann fer yfir meira en 10% af eigin fé, að ástæða sé til þess að Samkeppnisstofnun skoði eitthvað slíka þætti þegar þeir koma til. Ákvæðin í lögum um Samkeppnisstofnun eru þess eðlis að hún á auðvitað að fylgjast með þegar um er að ræða samþjöppun og fákeppni. Því finnst mér a.m.k. að Fjármálaeftirlitið ætti að leita einhvers konar umsagnar hjá Samkeppnisstofnun þegar um slíkt er að ræða.

Eins tek ég undir það sem fram kom fyrir stundu hjá hv. 3. þm. Vesturl., Jóhanni Ársælssyni, að það er ákaflega sérkennilegt þegar maður hugsar þetta út frá jafnræðisgrundvelli að þau ákvæði sem hæstv. ráðherra vill beita sér fyrir ná ekki til þeirra eignarhluta sem ná þessu marki þegar inni í fjármálakerfinu. Ég spyr: Hvað eru þeir margir, getur ráðherrann svarað því, innan fjármálastofnana sem eru með svo virkan eignarhluta eins og ráðherrann nefnir hér, þ.e. 10% eða meira? Hvaða fjármálafyrirtæki eru með 10% virkan eignarhluta eða meira núna í fjármálastofnunum?

Ég tek eftir í frv. mér til ánægju að inni í þessum virka eignarhluta eru líka vátryggingafélögin og það veitir svo sannarlega ekki af að halda utan um þá starfsgrein líka.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju er staðnæmst við 10% hlut? Mér finnst það ansi stór hluti, 10% hluti, og hefði viljað sjá 5% hlut og spyr hæstv. ráðherra hvort þessi 10% hlutur sé einhver heilög, útspekúleruð tala sem hér er nefnd. Ég spyr hvort ekki sé vilji fyrir því af hálfu ráðherrans að það sé skoðað í nefndinni sem fær málið til meðferðar hvort ekki megi hafa þennan virka eignarhluta eilítið lægri en kemur fram í þessu 10% hlutfalli.

Ég vil einnig spyrja ráðherrann sem fór að vísu ítarlega yfir þá fjóra kosti sem mig minnir að hafi verið skoðaðir í þessum tilgangi sem við erum að tala um, að koma í veg fyrir samþjöppun og fákeppni, hvort hún telji ekki líka eðlilegt og gæti verið til samkomulags í því efni að setja hömlur á atkvæðisrétt eigenda í bönkunum eins og við í Samfylkingunni höfum talað fyrir hér í dag. Ráðherrann hefur fært rök fyrir því að hún geti ekki fallist á það að setja ákveðnar hömlur á eignarhluta, þ.e. hámark á eignarhluta sem hver og einn má eiga í bönkunum. Í umræðum fyrr á árum hefur oft verið nefndur 5% eignarhluti og mig minnir að vinstri grænir tali um 8% eignarhluta en ráðherrann hefur fært sín rök fyrir því, sem eru samkeppnisrök, og mig minnir að hún hafi nefnt líka, er það ekki rétt, að í EES-samningnum séu ákvæði sem komi í veg fyrir slíkt.

Ráðherrann nefnir í frv. sínu að unnt sé að leggja hömlur á atkvæðisrétt í fjármálafyrirtækjum sem einstakir aðilar geta að hámarki ráðið yfir og hægt sé að setja þær einar sér eða með takmörkuðu eignarhaldi, en kostur þessarar leiðar, eins og hæstv. ráðherra nefnir í frv. sínu, sé að þessi leið skerðir ekki eins mikið möguleika fjármálafyrirtækja til hagræðingar en útilokar ekki fjárfestingar í eignarhlutum fjármálafyrirtækja. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er nokkuð sem kemur í veg fyrir það t.d. ef vísað er til EES-samninga í því tilviki?

Það eru sem sagt þessar tvær spurningar, það er spurning um að lækka þennan 10% hluta, og hvort ráðherrann væri opin fyrir því að skoða samhliða því einhvers konar takmarkanir á atkvæðisréttinum. Mér mundi hugnast miklu betur, herra forseti, að standa að því að styðja ráðherrann í sölu á öðrum bankanum ef þetta lægi fyrir og auðvitað að uppfylltum öðrum skilyrðum sem við höfum nefnt hér. Þriðja spurningin, herra forseti, svo ég haldi henni til haga líka, var um Samkeppnisstofnun og hennar aðkomu að því að hafa eftirlit með virkum eignarhluta.

Síðan vil ég spyrja ráðherrann að því sem við fórum yfir fyrr í dag, af því mér finnst það skipta miklu máli inn í þessa umræðu sem við erum að ræða hér, þ.e. stjórnunar- og eignatengsl í atvinnulífi og fjármálastofnunum, að hæstv. ráðherra gaf ekkert undir fótinn með það að hún mundi beita sér fyrir því að reyna að flýta þeirri úttekt sem fram fer hjá Samkeppnisstofnun. Ráðherrann bar fyrir sig svo smánarleg rök að það tekur engu tali, herra forseti. Hún talaði um að það kostaði peninga að flýta þeirri úttekt.

Nú hefur það tekið ráðherrann, ef ég man rétt, einhverja mánuði ef ekki ár að fá litlar 14 milljónir til að þessi úttekt geti farið fram á stjórnunar- og eignatengslum í atvinnulífi og á fjármálastofnunum. Og þó það mundi kosta eina milljón til viðbótar að setja meiri kraft í þessa vinnu þannig að hægt væri að skila henni inn í þingið á segjum næstu tveim til þremur vikum þá er nú ekki hægt að gráta þá einu milljón, herra forseti, þegar við erum að ræða um sölu á ríkisbönkunum upp á 40 milljarða kr. Ef það skýrir þessa mynd betur hvernig stjórnunar- og eignatengsl í fjármálastofnunum eru og gerir þingmönnum þar með auðveldara fyrir að taka afstöðu í þessu máli þá finnst mér það satt að segja vera smáaurar. Ég held að það sé eitthvað annað inni í myndinni en það að ráðherra geti ekki séð af einni milljón til að flýta þessari úttekt eða hvað það væri sem það kostaði.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra aftur að því, vegna þess að eftir þessu verður líka gengið í efh.- og viðskn., og það flýtir fyrir starfinu þar ef ráðherrann gæti t.d. sagt hér að hún mundi reyna eins og hún gæti að flýta þessu starfi. Ég spyr um það aftur af því að mér finnst þetta skipta verulegu máli í umræðunni þannig að það er fjórða spurningin sem ég hef til ráðherrans.

[20:30]

Ég vil nota þetta tækifæri, af því að mér gafst ekki færi á því í umræðum um hitt málið, að minnast á þá stöðu sem upp er komin í bönkunum að því er varðar eiginfjárhlutfall. Ég hef ítrekað, herra forseti, minnst á að ég hef áhyggjur af stöðu bankanna að því er varðar eiginfjárhlutfall. Ég tel eiginfjárhlutfallið hættulega lágt, ekki síst með tilliti til útlána í bönkunum, mikillar útlánaþenslu og verulegrar hættu á útlánatöpum. Eiginfjárhlutfallið á samkvæmt lögum að vera um 8% ef ég man rétt. Það nær því hlutfalli hjá Íslandsbanka og sparisjóðunum en ekki hjá Landsbanka samkvæmt því sem ég hef nú hér, nema ef víkjandi lán eru tekin inn. Séu þau ekki tekin með þá er eiginfjárhlutfall bankans töluvert langt, herra forseti, fyrir neðan það sem gert er ráð fyrir í lögunum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hún engar áhyggjur af stöðu eiginfjárhlutfalls innlánsstofnana? Hæstv. ráðherra veit mætavel eins og ég að Fjármálaeftirlitið hefur af þessu verulegar áhyggjur. Fjármálaeftirlitið hefur meira að segja kallað opinberlega eftir stoð í lögum fyrir því að hafa breytilegt eiginfjárhlutfall hjá innlánsstofnunum. Ég spyr: Hvers megum við vænta í því efni, herra forseti? Eru engin áform uppi á borði ráðherra um að gera breytingar varðandi eiginfjárhlutfallið? Það er, herra forseti, virkilega ástæða til þess að hafa áhyggjur af því.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fullvissaði okkur úr ræðustól um að innstæðueigendur þyrftu ekki að hafa áhyggjur af innstæðum sínum þó að einhver skakkaföll yrðu í bankakerfinu og það er vel.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég hef tækifæri til að ræða þetta mál og það sem við ræddum fyrr í dag í nefndinni. Ég hefði viljað ræða ýmislegt frekar og spyrja ráðherrann hæstv. en tími minn er liðinn. Ég vil því ítreka þær spurningar sem ég hef beint til ráðherrans. Ég vil spyrja hana líka í lokin, svo ég bæti við einni spurningu enn, hvort hún gæti ekki fallist á að skoða það sem við leggjum til varðandi það að 10% af hlutafé ríkisins verði dreift jafnt á milli fjárráða Íslendinga eða að einhverjar skorður eða skilyrði verði settar um sölu á þessum bréfum svo bréfin fari ekki á markað meðan þenslan er eins og raun ber vitni. Það voru rök ráðherrans fyrir því að fara ekki þá leið við að dreifa bréfunum.