Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 20:43:28 (5668)

2001-03-13 20:43:28# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[20:43]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst nefndin þurfa að skoða hvort þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, um að slíkt sé brot á samningum sem við höfum skrifað undir, séu réttar. Það þarf að koma því á hreint. Ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af því að það geti verið skaðlegt að eignarhald í svona fyrirtækjum verði á fárra höndum. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað sjá að menn rökstyddu a.m.k. á þann hátt að maður skildi að ómögulegt sé að fara aðra leið. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að ekki sé hægt að setja reglur um að menn fái ekki aukinn atkvæðisrétt fram yfir ákveðinn eignarhlut í svona félögum. Mér finnst einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir að hægt sé að misbeita valdi sínu í stjórnum svona fyrirtækja kannski að hafa þá einföldu reglu að t.d. þeir sem eigi yfir 10% í fyrirtækjum geti ekki eignast meiri atkvæðisrétt en því fylgir, þ.e. 10%. Ég hef hins vegar fyrirvara um prósentuna sjálfa.