Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 20:45:02 (5669)

2001-03-13 20:45:02# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[20:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér að mörgu leyti merkilegt frv. sem varðar eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Mig langar að minna á að við erum að hverfa frá þeirri stöðu að ríkið, einn aðili, átti 100% í ríkisbönkunum með tilheyrandi útlánatöpum og pólitískum lánveitingum. Þar áður voru sparifjáreigendur hlunnfarnir í áratugi án þess að nokkur segði eitt eða neitt. Það þótti öllum eðlilegt nema sparifjáreigendunum náttúrlega, þeir hættu að vera til. Nú erum við að hverfa frá þessu ástandi og þá rjúka menn upp til handa og fóta og vilja passa að ljótir einstaklingar skaði ekki eigin fyrirtæki. Þeir eru þó að hætta eigin fé á meðan staðan var áður þannig að menn hættu annarra manna fé, þ.e. skattgreiðenda. Þegar menn fara að hætta eigin fé þá á að gæta þess að þeir eigi ekki of mikið, fari sér ekki að voða.

Í fyrsta lagi vil ég nefna þessi 10%. Völd sem fylgja 10% atkvæðahluta fara eftir dreifingu á afgangi hlutafjárins. Eigi maður 9,5% hlut í fyrirtæki og restin af fyrirtækinu dreifist á tugi þúsunda hluthafa þá ræður hann öllu. Það er þekkt að það er mjög erfitt að ná saman atkvæðamagni þeirra 90,5% sem mjög eru dreifðir. Sá sem á 9,5% hlutafjár í slíkum banka ræður því eiginlega öllu. Við þekkjum þetta hjá Eimskip, hvernig lítill hlutur getur ráðið miklu.

Aftur á móti getur verið um að ræða ósköp lítið fyrirtæki. Ég held að lágmarksupphæð í bönkum sé 400 millj. þannig að þetta væru 40 millj. sem menn gætu átt, kannski gott einbýlishús. Þá þarf að gæta þess að sá aðili fari ekki sér og öðrum að voða með því að gera einhverjar gloríur með fyrirtæki sem hann hefur þó alla vega lagt í 40 millj. Þessi mörk eru afskaplega mismunandi og hafa mjög mismunandi áhrif.

Ég vil rétt aðeins koma inn á það sem hér hefur verið minnst á, t.d. fjármögnun fjárfestingar, hvernig viðkomandi hafi fjármagnað kaupin. Hverjum kemur það við nema féð sé illa fengið? Þá er það allt annars eðlis og heyrir undir allt önnur lög. Hvernig hann fer að því að fjármagna hlut sinn á ekki að koma neinum við meðan hann getur staðið við skuldbindingar sínar og það er væntanlega vandamál þess sem selur honum.

Varðandi markmið umsækjenda með eignarhaldi, hvað halda menn að umsækjandi muni segja að sé markmiðið? Væntanlega að græða. Ég sé ekki neitt annað markmið. Hann gæti náttúrlega gefið upp að hann ætlaði sér að lána sjálfum sér ódýrt, væri það hið raunverulega markmið, en ef það kæmi fram mundi hann hreinlega tapa, þ.e. þá mundi bankinn tapa trausti.

Geta skal um þekkingu og atvinnusögu umsækjanda. Það er svo sem allt í lagi. Hann getur talið upp allt það sem hann hefur afrekað á ævinni en honum ber og að tilgreina fyrri afskipti stjórnvalda, sem falið er eftirlit með einstaklingnum og lögaðilum, af umsækjanda sem haft geti áhrif á mat Fjármálaeftirlitsins. Þarna eiga menn væntanlega að telja upp samskipti við tollinn o.s.frv. Hér kemur einnig fram að þetta eigi ekki bara við um lögaðilann sjálfan, enda er erfitt að sjá hvernig lögaðili geti verið heiðarlegur einn sér. Nei, það á við alla stjórnina og eigendur. Ef við tökum dótturfyrirtæki lífeyrissjóðs, t.d. Þróunarfélagið, sem einhver einn lífeyrissjóður ætti virkan þátt í, þá féllu ekki aðeins dótturfyrirtækið, stjórnendur þess, forstjóri, endurskoðandi og allt heila batteríið undir lögin, heldur líka eigandinn.

Menn geta ímyndað sér hvernig þetta gengi sig gagnvart útlendum fjárfestum: Eitthvert dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis Deutsche Bank ætlar að fara að fjárfesta í Landsbankanum, bara aukalega einhvern tíma fyrir hádegi, og þá á að koma með upplýsingar um alla stjórnendur í Deutsche Bank, í dótturfyrirtækinu og í dótturdótturfyrirtækinu. Þetta gæti orðið mjög skrautlegt. Einhverjir embættismenn á Íslandi í Fjármálaeftirlitinu eiga að leggja mat á það hvort þetta ágæta fólk í útlöndum eða í íslenska lífeyrissjóðnum sé hæft til að eiga hlutinn og taka mið af þekkingu og reynslu umsækjenda. Af íslenskum aðstæðum eða hvað?

Mér finnst mjög merkilegt þegar sagt er um mat á umsækjendum: ,,Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta umsækjanda við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld ...`` Undir það fellur m.a. tollurinn. Það hafa nú sumir átt í útistöðum við tollinn og það getur þá komið þeim í koll seinna meir ef þeir sitja í stjórn lífeyrissjóðs sem fær ekki að fjárfesta í Landsbanka Íslands. Þetta er allt mjög undarlegt.

Það sem er kannski verst í þessu er að valdið er falið embættismönnum Fjármálaeftirlitsins, ágætisfólki eflaust en það fær óskaplega mikið vald. Það fær ekki bara vald til þess að hafna einhverju heldur og til að leggja dóm á fólk víðs vegar í þjóðfélaginu, t.d. í stjórnum lífeyrissjóða, og hvort það hafi þekkingu og reynslu, t.d. hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ef Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fjárfesti í Landsbankanum yfir virkum hlut þá ætti einhver embættismaður að leggja dóm á hans persónu, hvort hann sé hæfur til að stunda þessi viðskipti. Að maður tali ekki um erlenda aðila. Eins og ég gat um í andsvari við hæstv. ráðherra þá taka þeir þá áhættu að einhver embættismaður á Íslandi lýsi þá vanhæfa til að eiga hlut í banka á Íslandi, sem gæti bara þýtt gengisfall út um allan heim á hlutabréfum í City Bank o.s.frv. Ég er hræddur um að menn tækju ekki þá áhættu að fjárfesta á Íslandi.

Nei, herra forseti. Ég held að menn þurfi að skoða þessar reglur pínulítið betur. (JóhS: Stendur þú að frv.?) Nei, ég er með fyrirvara um þetta frv.

Síðan kemur að spurningunni um hvað gerist ef barn erfir slíkan hlut, ef einhver skyldi vera svo óvarkár að leggja svo stóran hlut í banka, þ.e. 10% sem mundi vera um 4 milljarðar miðað við markaðsvirði bankanna í dag, af sparifé sínu í slíkan banka. Ég efast reyndar um að nokkur Íslendingur eigi svo mikið fé. Félli viðkomandi frá og barnið hans mundi erfa þetta þá þyrfti að skoða þekkingu og reynslu barnsins í bankaviðskiptum, ella mætti það ekki að eiga þennan hlut? Það yrði að minnka hann hvað sem það kostaði þó að staða hlutabréfamarkaðarins væri mjög slæm.

En það er ekki aðeins þetta, herra forseti. Þetta gildir ekki aðeins um það þegar menn auka hlutinn heldur stendur í 3. gr.:

,,Sé aðila, sem á virkan eignarhlut í viðskiptabanka, svo farið eða fari hann þannig með hlut sinn að skaði heilbrigðan og traustan rekstur ...`` --- þá á líka að fara að skoða hann. Ef einhver er tekinn drukkinn undir stýri, einhver stjórnarmaður í lífeyrissjóði eða í stjórn fyrirtækis, (Gripið fram í: Ellilífeyrisþegi.) t.d. ellilífeyrisþegi í stjórn lífeyrissjóðs, þá á að taka upp allt eignarhaldið á virku hlutunum. Fjármálaeftirlitið hefði heimild til þess.

Í grg. með frv. er á bls. 19 ágætisúttekt sem Þórólfur Jónsson hdl. hjá LOGOS lögmannsþjónustu sf. gerði. Hann kemur með kosti og galla á að takmarka dreift eignarhald en það á líka við um þetta eftirlit eð eigendum virkra eignarhluta þar sem ókostirnir eru nákvæmlega þeir sömu. Hann segir að röksemdin fyrir því að taka upp slíkar takmarkanir séu reglur Evrópusambandsins sem byggi upp trúnaðartraust viðskiptavina. Sé einhver grunur um að trúnaður viðskiptavina minnki við að einhver fjárfesti í stórum hlut í banka, fyrir eigið fé, þá mundi ég ráðleggja þeim manni að gera það ekki. Hann mundi tapa mest á því sjálfur.

Einnig hefur verið fjallað um valdajafnvægi í hópi eigenda. Þeir sem tala um valdajafnvægi í hópi eigenda ættu kannski að skreppa á golfvöllinn öðru hverju og kanna hvað þar fer á milli manna sem sitja saman í bankaráðum og ræða svo um valdahlutföll. Þeir gætu einnig farið á klúbbfund þar sem menn hittast vegna þess að tengslin á milli manna þurfa ekki að vera svo greinileg, langt í frá.

Síðan er talað um dreifingu ágóðahluta. Ég veit reyndar ekki hvort það er hlutverk ríkisins að sjá um að menn dreifi fé sínu sæmilega.

Varðandi óbeina ábyrgð ríkisvaldsins á fjármálastofnunum þá er hún vissulega til staðar. Það hefur sýnt sig eins og menn hafa margoft nefnt. En þeir sem tapa fé sínu mest í því eru eigendur bankanna, eins og gerðist í Noregi. Eigendurnir töpuðu fyrst en síðan kom ríkið, bjargaði öllu saman og seldi bankana aftur, væntanlega með hagnaði. Ég reikna með því. Kaupir þá á slikk og seldur aftur með hagnaði, annars þekki ég þá sögu ekki nákvæmlega. Til að hindra þetta höfum við Fjármálaeftirlitið og heilmiklar reglur um eiginfjárstöðu og slíkt til þess að gæta hagsmuna sparifjáreigenda.

Þórólfur Jónsson nefnir líka rök gegn lagasetningunni um dreifða eignaraðild og þar ættu menn að leggja við eyrun. Hann segir á síðu 21, með leyfi herra forseta, að eina röksemdin gegn lagasetningu um dreifða eignaraðild séu skertir möguleikar til hagræðingar.

,,Lög um dreifða eignaraðild mundu útiloka sumar fjárfestingar aðila sem hefðu það einkum í huga að koma á samstarfi milli sín og viðkomandi fjármálastofnunar, m.a. til að skapa samlegðaráhrif milli aðilanna tveggja.``

Þetta gæti t.d. átt við um erlenda aðila sem ætluðu að fjárfesta í íslenskum banka og veita hingað til lands þekkingu sinni á bankastarfsemi yfirleitt en íslenskur fjármálamarkaður hefur lengst af verið afskaplega heimóttarlegur. Það sem okkur vantar kannski mest er einmitt erlend þekking. Eins og ég gat um gætu þessar reglur hreinlega fælt menn frá því að eiga nokkuð við að fjárfesta í íslenskum bönkum.

Hér segir jafnframt að þetta mundi lækka markaðsvirði fjármálafyrirtækja. Þetta á nákvæmlega við í þessu samhengi. Ef erlendur aðili, þótt ekki sé nema einn, fælist frá þá vantar a.m.k. hann til þess að halda uppi verðinu. Ríkið er því í raun að tapa á því að leggja fram þetta frv.

Þórólfur segir og að samkeppnisstaða íslenskra fjármálafyrirtækja versni vegna þess að íslenskir bankar sem þurfa að hlíta þessum reglum Fjármálaeftirlitsins séu í samkeppni við banka sem ekki þurfa að hlíta sömu reglum, erlenda banka sem geta verið á netinu eða hvernig sem er. Þá kemur hann inn á minni aðsókn erlendra fjárfesta í íslensk fjármálafyrirtæki --- það sem ég rakti hér áðan --- og skerta framleiðni vegna þess að stærri hluthafar geri yfirleitt meiri arðsemiskröfur. Þeir hafa lagt meira undir en minni fjárfestar og hafa meiri áhrif til að knýja fram kröfu um aukna arðsemi. Mér finnst því, herra forseti, allt í þessu frv. vinna á móti því að ná fram hámarksverði á hlut okkar í Landsbankanum og Búnaðarbankanum samkvæmt því frv. sem við ræddum hér fyrr í dag. Ég skil í raun ekki til hvers menn fara í þessa vegferð. Við búum við reglur sem sagt er að fullnægi Evrópska efnahagssvæðinu um upplýsingagjöf og ég skil ekki af hverju það nægir ekki.