Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 20:58:26 (5670)

2001-03-13 20:58:26# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[20:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Eins og hans er vandi dregur hv. þm. Pétur H. Blöndal upp nokkuð svart-hvíta mynd af tilverunni. Áður voru vondir tímar en nú eru góðir tímar. Áður voru bankar illa reknir en nú er fjármálakerfið vel rekið. Það er undarlegt að heyra yfirlýsingar af þessu tagi í ljósi þess að margir kunnáttumenn úr fjármálalífinu sjá ýmis teikn á lofti um kreppu í fjármálakerfinu. Útlán banka og fjármálastofnana hafa aukist um 25--30% á ári og þess gætir nú í vaxandi mæli að fólk geti ekki risið undir skuldbindingum sínum. Þá bíður það væntanlega ríkisins að hlaupa undir bagga. Það er misskilningur hjá hv. þm. að það hafi veitt norska ríkinu hagnað á sínum tíma þegar það pumpaði 500 milljörðum til bjargar norska bankakerfinu. Það var síður en svo norska skattborgaranum til hagsbóta þótt það hafi komið efnahagslífinu til góða að sumu leyti.

Spurningin sem ég vildi beina til hv. þm. Péturs H. Blöndals, vegna þess að ég hef ákveðna samúð með sjónarmiði hans og gagnrýni á eftirlitssamfélagið sem víkur til hliðar samfélagi sem byggir á almennum reglum: Óttast hann ekki að því fylgdu hættur ef sömu aðilar og eru að ná undirtökum í íslensku efnahagslífi næðu á sitt vald þessum mikilvægu fjármálastofnunum landsins? Óttast hann ekki að samþjöppun á valdi og peningum í atvinnulífi og fjármálalífinu dragi úr samkeppni sem ég veit að hv. þm. vill mikið leggja á sig til að tryggja?