Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:08:55 (5675)

2001-03-13 21:08:55# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það að fara neðar með mörkin þá lýsti ég miklum efasemdum með þetta frv. og þau mörk sem í því eru ráðgerð. Ég tel að slík mörk muni takmarka eftirspurn erlendra aðila eftir hlutafé í þessum litlu íslensku bönkum og ekki væri á það bætandi ef menn færu neðar með þau. Það mundi enn rýra verðgildi bankanna.

Varðandi það að verja andvirði bankanna í Byggðastofnun þá hef ég aldrei heyrt talað um að verja ætti 40 milljörðum í Byggðastofnun, þ.e. andvirði bankanna. Ég held að það komi ekki til mála. Ég hef ekki heyrt af því fyrr en í dag að verja ætti einhverjum hluta af andvirði bankanna til Byggðastofnunar. Hv. þm. þekkja afstöðu mína til Byggðastofnunar. Ég hef margoft lagt til að sú stofnun yrði lögð niður og tel að hún hafi ekkert annað gert en að skaða landsbyggðina. Ég held að allar pólitískar stýringar á fjármagni skaði, sérstaklega lántakandann og það hafi sýnt sig á Vestfjörðum.