Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:12:05 (5677)

2001-03-13 21:12:05# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:12]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr mig hvort ég vilji heldur vera hengdur eða skotinn. Ég vil hvorugt. Ég svara því ekki hvort ég vilji lækka þessi mörk. Ég tel að aðferðafræðin sé slæm, það sé slæmt að fela svona vald í hendur embættismanna Fjármálaeftirlitsins, að úrskurða um hvort einstaklingar séu hæfir til að eiga hlut í fyrirtæki. Ég get hreinlega ekki séð hvernig Fjármálaeftirlitið á að uppfylla þá skyldu með sæmilegri reisn, að úrskurða um að einhver sé ekki hæfur til að eiga ákveðinn hlut og muni í raun skaða sjálfan sig. Ég hef haft miklar efasemdir um þetta frv. alveg frá byrjun og úttala mig ekkert um lækka eigi þessi mörk enn frekar eða hafa þau 10%.

Varðandi það að verja hluta andvirðisins í Byggðastofnun og hvort ég væri þá á móti því að selja bankana þá er spurningin um hvaða hagsmuni maður er að verja. Standi ég frammi fyrir því að velja um hvort selja eigi bankana, sem hefur verið baráttumál mitt til fjölda ára --- ég tel að ríkið hafi ekkert að gera með að vera að vasast í fjármálastarfsemi --- gegn því að einhver hluti andvirðisins fari í Byggðastofnun, sem ég er líka á móti, þá mundi ég segja að þeir hagsmunir væru miklu minni en hinir að selja bankana, sérstaklega ef hluturinn sem fer í Byggðastofnun er ekki mjög stór hluti af verðinu.