Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:25:39 (5682)

2001-03-13 21:25:39# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Frv. sem hér er til umfjöllunar er hluti af stærri spyrðu. Þetta frv. fjallar um eftirlit með eignaraðilum fjármálafyrirtækja en er sett fram á sama tíma og ríkisstjórnin kynnir áform um að selja hlut sinn í ríkisbönkunum.

Ég hefði fyrir mitt leyti viljað að þessi spyrða væri enn stærri og ríkisstjórnin hefði gert glögga grein fyrir efnahagslegum forsendum þessarar sölu. Hér er verið að tala um að selja eignir upp á 40 milljarða á sama tíma og boðuð er sala á fleiri eignum í eigu almennings. Landssíminn og fleiri stofanir munu vera komnar á sölulista.

Ég sakna þess einnig að fá nánari fregnir af tímasetningu sölunnar. Okkur er sagt að selja eigi ríkisbankana fyrir lok kjörtímabilsins en ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort ríkisstjórnin hafi komið sér saman um nákvæmari tímasetningar í því efni.

Við umræðuna var vakin á því athygli að tilskipanir Evrópusambandsins kæmu í veg fyrir að lýðræðislegur vilji næði fram að ganga í þessu máli. Hér hefur komið fram við umræðu á Alþingi að vilji standi til að tryggja dreifða eignaraðild að ríkisbönkunum. Það eina sem stendur þar í vegi eru skipanir frá Brussel. Skildi ég hæstv. viðskrh. rétt, að hún ætlaði að láta fara fram nánari könnun á þessu atriði sérstaklega?

Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir að hlýða á mál mitt en þetta eru þær spurningar sem ég óska eftir að ráðherrann svari.