Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:27:41 (5683)

2001-03-13 21:27:41# 126. lþ. 87.6 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:27]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi hinn lýðræðislega vilja og hið Evrópska efnahagssvæði og ýmislegt sem við höfum undirgengist með því að vera hluti af því samkomulagi, þá er það staðreynd að við erum alltaf annað slagið að rekast á atriði sem benda til þess að það hafi einhverja galla í för með sér að vera með í þessu samstarfi. Ég vil þó halda því fram að kostirnir séu miklu fleiri. Ég hef hins vegar ekki sagt að þetta sé eina ástæða þess að þessi leið var farin í frv. og að ekki var farið út í það að takmarka eignaraðild við ákveðið hlutfall. Ég held að sú leið hafi mjög marga galla miðað við það að við erum aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að þær kvaðir mundu þá ekki fylgja þeim erlendu fyrirtækjum sem hér gætu verið á markaðnum.

Í sambandi við tímasetningu þá er ekki hægt að kveða upp úr um það á þessari stundu hvernig farið verður í þessa sölu. Þar að auki væri rangt að gera það vegna þess að þá gæfum við markaðnum of miklar upplýsingar. Við verðum að hafa í huga að fá sem hæst söluverð.

Hvað efnahagslegar forsendur varðar, eins og ég er margbúin að láta koma fram, þá skipta þær máli. Ástandið á markaðnum skiptir máli og hvert hið þjóðfélagslega ástand er þegar að sölu kemur.