Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 13. mars 2001, kl. 21:33:40 (5686)

2001-03-13 21:33:40# 126. lþ. 87.7 fundur 523. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (verðtryggðar eignir og skuldir) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 126. lþ.

[21:33]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst svolítið sérkennilegt að taka þetta frv. á dagskrá vegna þess að þetta er frv. til laga sem á að vera flutt samhliða öðru frv. sem var lagt fram í dag og er ekki á dagskrá. Ég hefði talið eðlilegra að þau mál fylgdust að.

En ég geri mér grein fyrir, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að hér er ekki stórmál á ferðinni að því er þetta frv. varðar. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, þar sem við erum með þetta mál á dagskrá sem fjallar um að setja reglur um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka og sparisjóða, hvort það sé ekki á döfinni af hálfu ríkisstjórnarinnar að fara að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum. Það hefur lengi verið rætt um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að afnema ætti verðtryggingu á fjárskuldbindingum. Nú höfum við búið ansi lengi við stöðugleikann, a.m.k. er ríkisstjórnin ávallt að telja okkur trú um það. Fyrir nokkrum árum var sagt af hálfu þeirra sem sitja í ríkisstjórn og man ég ekki betur en fyrrv. viðskrh. hafi rætt um það að stefna bæri að því að afnema verðtryggingu á fjárskuldbindingum á útlánum þegar við byggjum við sæmilegan stöðugleika. Verðbólgan hefur verið lág í nokkurn tíma og eins og ég segi, ríkisstjórnin er að telja fólki trú um að hér sé stöðugleiki og verði eitthvað viðvarandi þannig að þetta er eðlileg spurning til hæstv. viðskrh. hvort eitthvað sé á hennar borðum verið að skoða að afnema verðtryggingu á útlánum. Eftir því sem ég hef skilið það mál best þá erum við eitt af fáum löndum sem búa við slíka verðtryggingu og ég spyr: Er ekki orðið tímabært að fara að huga að því að afnema verðtryggingu á útlánum.