Viðbrögð við gin- og klaufaveiki

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 13:38:36 (5694)

2001-03-14 13:38:36# 126. lþ. 88.91 fundur 376#B viðbrögð við gin- og klaufaveiki# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Vissulega er vá fyrir dyrum og það eru ógnvekjandi fréttir sem berast hingað frá Bretlandi og ekki er það gott að þessi alvarlegi sjúkdómur er farinn að breiðast út á meginlandið líka. Ég er vissulega á því að það eigi að grípa til eins harðra ráðstafana og unnt er í þessu sambandi.

Ég treysti því að ráðuneytið sé vel á verði og hef reyndar fregnir af því. Við ræddum þessi mál í hv. landbn. í morgun og þar vorum við með frv. um dýrasjúkdóma sem hafði reyndar verið ætlunin að afgreiða út á þeim fundi en það var sent aftur í ráðuneytið ef unnt væri í tengslum við samþykkt á því frv. að setja einhver hert lög um einmitt innflutning til landsins vegna hættu á hættulegum dýrasjúkdómum. Þetta er því til skoðunar hjá ráðuneytinu og verður tekið fyrir í næstu viku.

Ég verð samt að segja að mér fundust tillögur sem ég heyrði í síðustu viku um að fara að skjóta farfugla til að rannsaka hvort þeir bæru með sér gin- og klaufaveiki á fótunum nokkuð róttækar og ég verð að segja að jafnvel þó að fyndist gin- og klaufaveikissmit á fótum einhverra svana, hvað ætla menn þá að gera? Skjóta alla farfugla? Ég tel þá leið ekki færa og mæli ekki með henni jafnvel þó ég vilji að ýtrustu varúðar sé gætt.