Innflutningur hvalaafurða

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:00:37 (5704)

2001-03-14 14:00:37# 126. lþ. 89.1 fundur 421. mál: #A innflutningur hvalaafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Nú hitnaði heldur í kolunum og hef ég líklega talað af mér hér áðan. En það er alveg ljóst eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir minntist á að auðvitað verða fagleg sjónarmið að ráða. Ég sagði að enginn hefði sótt um að flytja inn hvalkjöt en verði það gert sýnist mér það mjög einfalt, að engin leið verði að hafna því jafnvel þótt ráðherrann vildi gera slíkt sem ég ekki vil því að ég er stuðningsmaður og greiddi því atkvæði á Alþingi Íslendinga að hvalveiðar yrðu hafnar því að ég álít að við eigum ekki að láta hvalinn éta okkur út á gaddinn. Hann gæti gert það ef hann einn fær frið í náttúrunni. Þetta er afurð sem ber að nýta þannig að ég fullvissa hv. fyrirspyrjanda um að samviska mín er hrein í þessu þó að ég minnti á, sem hún skilur vel, hve íslenskt kjöt væri gott úr íslenskri náttúru. Það var frá hjartanu mælt og af einlægni.

Áhugi er hjá mörgum að hefja hvalveiðar og ég styð það, ríkisstjórnin styður það og Alþingi styður það þannig að auðvitað gerum við allt til þess að styðja okkar stuðningsaðila, Norðmenn, í þeim efnum.

Ég verð því miður að segja hv. þm. að engin umsókn hefur komið enn þá um að flytja hingað inn hvalkjöt en það verður metið á mjög faglegum forsendum þegar það gerist og ég sé enga leið eða ástæðu til að banna það.