Húsnæðismál

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:06:05 (5706)

2001-03-14 14:06:05# 126. lþ. 89.2 fundur 458. mál: #A húsnæðismál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda að vekja máls á þessu efni. Ég vil segja það fyrst að húsnæðislöggjöfin er nokkuð góð. Félagsbústaðir hafa stóraukið framboð á leiguhúsnæði borgarinnar. Árið 1991 voru keyptar 14 íbúðir, 100 í fyrra og 96 árið 1999. Afgreiðsla íbúða á vegum húsnæðisnefndar Reykjavíkur var þannig að á árinu 1991 voru afgreiddar 223 íbúðir, 528 í fyrra.

Hins vegar er alveg hárrétt hjá hv. fyrirspyrjanda að framboð á leiguhúsnæði er of lítið. Ég hef að undanförnu átt viðræður við forustumenn lífeyrissjóða, við forustumenn úr atvinnulífi og verkalýðshreyfingu og hef ritað lífeyrissjóðunum svohljóðandi bréf sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

,,Á síðastliðnum árum hefur eftirspurn eftir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu vaxið mjög. Ástæðan er m.a. sú að aðflutningur fólks til höfuðborgarsvæðisins bæði frá landsbyggðinni og frá útlöndum er langt umfram áætlanir. Fleiri þættir koma til. Breyttar forsendur vegna lengri skólagöngu og hreyfanlegri vinnumarkaður kallar á eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Þrátt fyrir verulega aukningu leiguíbúða á vegum sveitarfélaga er mikil þörf fyrir fleiri leiguíbúðir.

Sveitarfélögum ber lögum samkvæmt að tryggja eftir því sem kostur er framboð á leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna, svo að vitnað sé til félagsþjónustulaganna. Félagsmálaráðuneytið telur mjög brýnt að fá fleiri aðila til að stuðla að auknu framboði leiguíbúða. Lög nr. 44/1998, um húsnæðismál, opna möguleika á því að félög eða hlutafélög sem stofnuð eru í þeim tilgangi að vinna að húsnæðismálum geti sótt um allt að 90% lán frá Íbúðalánasjóði til kaupa eða byggingar leiguíbúða. Félögin þurfa að útvega 10% fjármögnunar.

Þau félög sem nú þegar starfa að þessum málum eru flest bundin starfsemi í þágu sérhópa, svo sem stúdenta, fatlaðra og aldraðra. Þau félög sem starfa á almennum grundvelli eru húsnæðissamvinnufélögin sem stofnuð voru 1983 og hafa á sínum vegum rekstur fjölmargra íbúða. Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hefur t.d. öðlast mikla reynslu og ræður yfir fagþekkingu á þessu sviði. Búsetaíbúðir eru millistig milli eignar- og leiguíbúða. Leigjandi kaupir búseturétt sem er a.m.k. 10% og Búseti er því ekki hefðbundið leigufélag.

Sú hugmynd hefur verið sett fram í félagsmálaráðuneytinu að kannaður verði áhugi á því að Búseti stofni húsnæðisfélag um rekstur leiguíbúða með aðild verkalýðshreyfingar og/eða lífeyrissjóða. Í 4. gr. b-lið samþykkta húsnæðissamvinnufélagsins Búseta kemur m.a. fram að eitt af markmiðum félagsins er ,,að eiga aðild að fyrirtækjum með takmarkaðri ábyrgð eins og samvinnusamböndum samkvæmt lögum um samvinnufélög og hlutafélög, enda starfi þau fyrirtæki að verkefnum sem teljast mikilvæg fyrir húsnæðissamvinnu``. Önnur félög eða hlutafélög gætu hugsanlega tekið slíkt að sér sem stofnuð yrðu, og einnig er sá möguleiki fyrir hendi að fela Félagsbústöðum í Reykjavík rekstur íbúðanna samkvæmt rekstrarsamningi. Spurning er hvort lífeyrissjóðir sem lána sjóðfélögum til kaupa á eigin húsnæði geti komið til móts við leigjendur með því að eiga aðild að leigufélögum Búseta með því að lána 10% byggingarkostnaðar eða kaupverðs íbúðarinnar. Á vegum félagsmálaráðuneytisins er unnið að útfærslu á tillögum um aðstoð við leigjendur með breytingum á húsaleigubótum, með stofnstyrkjum til framkvæmdaraðila og athugun á skattalegu umhverfi leigufélaga. Varðandi þátttöku sveitarfélaga eru hugmyndir um framlög í formi lóða- og gatnagerðargjalda. Hugmyndir hafa verið kynntar nokkrum forustumönnum verkalýðshreyfingar, Samtaka atvinnulífsins og lífeyrissjóða.

Í ljósi jákvæðra undirtekta þar sem kynntar hafa verið ofangreindar hugmyndir og hvort og þá hvernig lífeyrissjóðir gætu stuðlað að auknu framboði leiguíbúða er þess hér með farið á leit að nokkrir öflugustu lífeyrissjóðirnir tilnefni fulltrúa til viðræðna við fulltrúa ráðuneytisins um frekari könnun á hugmyndinni.``

Þetta var bréfið, herra forseti, og það var sent níu stærstu lífeyrissjóðunum og samrit til ASÍ, BSRB, Samtaka atvinnulífsins og Búseta.