Húsnæðismál

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:13:40 (5709)

2001-03-14 14:13:40# 126. lþ. 89.2 fundur 458. mál: #A húsnæðismál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Í máli hæstv. félmrh. kom fram að hann telur að nýja húsnæðislöggjöfin hafi reynst vel. Það getur vel verið að hún hafi reynst einhverjum viðhlítandi en það sem við stjórnarandstæðingar vöruðum sérstaklega við þegar við töluðum okkur blá í þessu máli þegar þessi lög voru samþykkt var að þau væru mjög óhagstæð þeim hópi sem stæði höllustum fæti í þjóðfélaginu. Það hefur sérstaklega komið á daginn núna þar sem staðfest hefur verið að biðlisti eftir húsnæði í Reykjavíkurborg hefur tvöfaldast á sl. tveim árum jafnvel þó að uppkaup á húsnæði til að leigja út, eftir því sem hæstv. félmrh. upplýsti, hafi stóraukist. Ég verð að segja að þetta finnst mér einmitt sýna fram á að við sem vöruðum við þessu á sínum tíma höfðum rétt fyrir okkur, en að öðru leyti vil ég fagna því að hæstv. félmrh. vill ganga til samstarfs við Búseta um lausn málsins.