Húsnæðismál

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:18:29 (5712)

2001-03-14 14:18:29# 126. lþ. 89.2 fundur 458. mál: #A húsnæðismál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég fagna mjög jákvæðri umræðu allra þeirra sem hér hafa tekið til máls og ég vona að hér geti orðið góð samstaða um þetta mikla verkefni. Unnið er að því að leysa vanda þeirra byggðarlaga þar sem of mikið framboð er á húsnæði jafnframt því sem framtíðaraðstoð við að fullnægja þörf eftir leiguhúsnæði er líka til athugunar og er unnið að frambúðarlausn á þeim vanda.

Við erum að skoða skattlagningu húsaleigubóta eða kanna áhrif á afnám skattlagningar. Við erum að athuga stofnstyrki, t.d. 3% frá ríki og 2--3% frá sveitarfélagi og ef sveitarfélagið kemur á móti, þá væri e.t.v. hærri upphæð frá ríkinu og sveitarfélagið fengi tilvísunarrétt, ráðstöfunarrétt á einhverjum íbúðunum. Við erum að skoða húsaleigubótahækkun sem kæmi þá á móti hugsanlegri hækkun vaxta þannig að leigukostnaður einstaklinganna hækki ekki.

Menn hafa verið að draga í efa framboð félagslegs húsnæðis í Reykjavík. Afgreiðsla íbúða á vegum Húsnæðisnefndar Reykjavíkur hefur vaxið úr 223 íbúðum 1991 í 528 árið 2000. Menn hafa talað um vaxandi erfiðleika lágtekjufólks. Vanskil við Íbúðalánasjóð er í sögulegu lágmarki og umsóknir um greiðsluerfiðleikalán eru líka miklu færri en þær hafa verið áður. Þær voru 1545 árið 1995, en 233 í fyrra. Það er dálítil aukning í óskum um frystingu núna og því miður virðist áfallið í Vestmannaeyjum hafa orðið til þess að Vestmanneyingar hafa í auknum mæli óskað eftir greiðslufresti.