Lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:24:16 (5714)

2001-03-14 14:24:16# 126. lþ. 89.3 fundur 464. mál: #A lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt: Hyggst ráðherra leggja fram frumvarp að heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu erfðaauðlinda á grundvelli Ríó-samningsins um líffræðilega fjölbreytni og ef svo er, hvenær?

Því er til að svara að í umhvrn. hefur verið til athugunar undirbúningur að frv. til laga um vernd, nýtingu og aðgang að erfðaauðlindum í náttúru landsins í samræmi við ákvæði samningsins um líffræðilega fjölbreytingi sem Ísland gerðist aðili að 1995 og hv. fyrirspyrjandi, Margrét Frímannsdóttir, lýsti ágætlega í ræðu sinni.

Setning löggjafar um erfðaefni tengist m.a. ákvæði 34. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, en þeirri grein var á sínum tíma skotið inn í frv. meðan það var til umræðu á Alþingi til þess að taka á vaxandi sókn í að safna hveraörverum til rannsókna og hagnýtrar nýtingar þeirra, erfðaefnis þeirra og efnasambanda. Í greininni kemur fram, virðulegur forseti:

,,Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að höfðu samráði við umhverfisráðherra. Náttúrufræðistofnun Íslands fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.``

Greinin er aðeins lengri en þetta sem hér var lesið.

Í lögunum er einnig ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um endurskoðun þessarar greinar fyrir 1. jan. 2001 og hafa fulltrúar umhvrn. og iðnrn. farið yfir málið en ekki er búið að endurskoða lögin enn þá þrátt fyrir að þessi tími sé fallinn. Ljóst er að þörf er á að setja tvíþætta löggjöf á þessu sviði. Annars vegar þarf að taka á umhverfis- og náttúruverndarþættinum þar sem fjallað er um verndun, friðun, söfnun og aðgang að erfðaauðlindum samanber það sem á undan var talið og hefur umhvrn. hafið slíka vinnu. Hins vegar þarf að setja löggjöf um nýtingu erfðaauðlinda í líftækniiðnaði hér á landi þar sem settur yrði rammi utan um slíka starfsemi, svo sem leyfisveitingu til slíkrar starfsemi en iðnrn. er nú að vinna þann þátt. Það stefnir því í að þessi vinna verði tvíþætt, þ.e. annars vegar verndarþátturinn og hins vegar nýtingarþátturinn.

Á þessari stundu er ekki ljóst hvort verndarþátturinn verður í sérlöggjöf en líklegra er og ég tel þótt ekki sé búið að taka ákvörðun um það í ráðuneytinu að eðlilegra sé að skoða og taka á verndarþættinum í lögum um náttúruvernd. Þá yrði náttúruverndarlögunum breytt og tekið á þeim þætti sem snýr að samningnum um líffræðilega fjölbreytni og snýr að verndarþættinum, að það yrði tekið inn í náttúruverndarlögin. En verið er að vinna þessi mál eins og hér hefur verið upplýst bæði í iðnrn. og umhvrn. og það er samstarf þar á milli. En löggjöfin hefur ekki séð dagsins ljós og heldur ekki frv. þannig að það er talsverð vinna eftir.