Lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:31:46 (5717)

2001-03-14 14:31:46# 126. lþ. 89.3 fundur 464. mál: #A lög um vernd og nýtingu erfðaauðlinda# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið vegna þessarar fyrirspurnar. Hv. þm. Jón Bjarnason vildi gjarnan heyra eitthvað um tímasetningar frá ráðherra. Því miður get ég ekki gefið út neinar tímasetningar en ég ítreka það sem ég sagði í fyrra svari mínu að unnið er að þessum málum bæði í iðnrn. og umhvrn. Við erum að reyna að herða á þeirri vinnu eins og við mögulega getum en ég treysti mér ekki til að gefa út neinar tímasetningar.

Það er rétt að nauðsynlegt er að setja löggjöf varðandi þessi mál og það eru ekki bara hveraörverur sem menn hafa verið að líta til, það eru fleiri atriði og erfðaefni sem menn hafa verið að skoða og eitt var nú ekki nefnt hér en það eru fléttur. Ég ræddi þessi mál eilítið við forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands í morgun og þar kom fram í máli hans að það er líka þrýstingur á fléttur.

Það er alveg ljóst að það mun koma fram frv. eða frumvörp á næstunni sem umhvrn. og iðnrn. eru að vinna og það er vel hugsanlegt að við þurfum að hafa meira samráð við landbrn. um þessi mál. En við munum a.m.k. reyna að flýta þessari vinnu eins og okkur er frekast unnt.