Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:35:49 (5719)

2001-03-14 14:35:49# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. hef ég leitað umsagnar Vegagerðarinnar um umferð hjólreiðafólks um Reykjanesbrautina eftir að hún verður tvöfölduð. Innan Vegagerðarinnar er þekkt að þarna er um talsverða umferð hjólreiðafólks að ræða og þá einkum og sér í lagi yfir sumartímann. Hins vegar eru ekki til upplýsingar um hversu mikil umferðin er og Vegagerðin ákvað því fyrir nokkru að láta fara fram sérstaka talningu í sumar á þessari umferð. Talningarfólk Vegagerðarinnar mun framkvæma skyndikannanir þegar ferðamannatíminn er í hámarki en einnig fyrir og eftir aðalferðamannatímann. Niðurstaða framangreindrar könnunar mun ráða miklu um framtíðarfyrirkomulag þessara mála.

Það er alveg ljóst að eftir að Reykjanesbrautin hefur verið tvöfölduð mun ekki verða heimilt að ferðast um hana á reiðhjóli. Umferð bifreiða og reiðhjóla fer ekki saman á hraðbraut af þeim gæðum sem stefnt er að með tvöfaldri Reykjanesbraut. Við skoðun á mögulegu fyrirkomulagi er ljóst að hægt er að beina reiðhjólafólki á eldri hliðarvegi frá Straumsvík að Vogastapa. Það sem eftir er leiðarinnar þarfnast sérstakrar skoðunar og um það verður fjallað í næstu framtíð samhliða því sem unnið verður að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.

Gerð hjólreiðastíga er fyrst og fremst skipulagsmál og er því í höndum sveitarfélaga þó heimilt sé að veita til þeirra fjárframlög samkvæmt 9. gr. vegalaga, nr. 45/1994, með síðari breytingum. Ýmsar aðrar leiðir koma einnig til greina til þess að tryggja aðskilnað hjólreiða og bifreiðaumferðar. Má þar nefna skýrar leiðbeiningar um leiðarval til hjólreiðamanna í Leifsstöð við komu til landsins og eins mætti athuga möguleika þess að flugvallarrúturnar geti tekið reiðhjól á þægilegan hátt í farangursrými sitt. Merkingar og eftirlit á sjálfri brautinni munu einnig koma hér við sögu og margt fleira sem er nauðsynlegt að vinna að til að auðvelda umferð hjólreiðamanna og umfram allt tryggja öryggi vegfarenda.

Að öðru leyti hefur ekki verið mörkuð sérstök stefna um aðbúnað og þarfir hjólreiðamanna á þjóðvegum landsins. Öllum má ljóst vera að hér er um verulegan kostnað að ræða ef leggja ætti hjólreiðabrautir með öllum þjóðvegum landsins. Á hitt er að líta og á það er nauðsynlegt að benda að með breikkun axla á Reykjanesbrautinni hefur öryggið aukist þar og aðstaða hjólreiðamanna batnað. En ég legg áherslu á að gera verður sérstakar ráðstafanir til að aðgreina umferð þeirra sem eru á reiðhjólum frá bílaumferðinni þegar búið er að tvöfalda Reykjanesbrautina.