Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:39:21 (5720)

2001-03-14 14:39:21# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli en fyrir þinginu liggur einmitt þáltill. um að skipa nefnd um hönnun og merkingu hjólreiðabrauta og allir fulltrúar í umhvn. Alþingis eru flutningsmenn með mér að þessari tillögu. Fyrir það er ég auðvitað þakklátur.

Eins og kom fram er gríðarlega dýrt að leggja hjólreiðabrautir um allt land. Við erum kannski ekki að tala um það, við verðum að byrja smátt, við munum byrja í bæjunum, þetta eru skipulagsmál hjá borginni og í bæjarfélögum. Hér er um mjög umhverfisvænan ferðamáta að ræða, við erum að tala um Reykjanesbraut í þessu sambandi, Fjarðarheiðina líka þar sem hjólreiðamenn koma með ferju frá Norðurlöndunum. Ég fagna mjög þessari umræðu og auðvitað er nauðsynlegt að taka tillit til þessara mála vegna þess að hjólreiðar eru einn umhverfisvænsti ferðamáti sem hægt er að hugsa sér.