Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:40:37 (5721)

2001-03-14 14:40:37# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera hjólreiðamönnum kleift að komast leiðar sinnar og hvað Reykjanesbrautina varðar þá hljótum við þingmenn sem komum alltaf að þessum vegamálum í Reykjanesi að skoða hvernig hægt er að taka á þeim málum við þá tvöföldun sem fram undan er og fram hefur komið hjá ráðherra að þá verður ekki hægt að leyfa hjólreiðar um þá braut.

Ég hlýt að koma því að hér að Vogamenn hafa komið því að á flugvellinum hvað það er fögur leið að hjóla Strandveginn, fara niður í Vogana og hjóla Strandveginn. Það er undurfögur leið sem ég hvet þingmenn til að fara og skoða en hún er bara hluti af leiðinni. Þetta er í raun og veru mjög þýðingarmikill þáttur í ferðamennsku okkar. Mér finnst að á landinu öllu verðum við að stefna að því að gera þennan ferðamáta mögulegan án þess að fólk liggi í bílaumferðinni sjálfri eins og það er í dag þó svo að það sé langtímamarkmið að hjólreiðabrautir verði meðfram öllum vegum.