Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:43:19 (5723)

2001-03-14 14:43:19# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tel að gera þurfi átak til þess að auðvelda hjólreiðamönnum að komast leiðar sinnar. Ég held að þetta sé ekki bara umhverfisvænn ferðamáti heldur er þetta sá máti sem er hvað þægilegastur til að komast í góða snertingu við náttúruna.

Ég hjó eftir því að hæstv. samgrh. er ekki búinn að gera áætlun um það hvernig eigi að koma mönnum sem eru á hjólum á milli Vogastapa og flugstöðvarinnar. En ég varð þess heldur ekki áskynja í ræðu hæstv. samgrh. að hann hefði uppi hugmyndir um hvernig menn ættu að komast frá Hafnarfirði til Straumsvíkur. Getur hann svarað því?

Í annan stað, herra forseti, vegna þess að hér er um mikilvægt mál að ræða, þá vildi ég spyrja hæstv. samgrh. hvort unnið sé að stefnu í hans ágæta ráðuneyti um hjólreiðar á umferðaræðum á Íslandi. Ef það er ekki þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki tíma kominn til þess að leggjast í vinnu varðandi þetta mikilvæga mál.