Hjólreiðamenn á Reykjanesbraut

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:45:25 (5725)

2001-03-14 14:45:25# 126. lþ. 89.4 fundur 490. mál: #A hjólreiðamenn á Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hv. þm. fagna umræðunni en ég held að hv. þm. geti líka um leið harmað svör hæstv. samgrh. því að það eru mikil vonbrigði að vilji hæstv. ráðherra skuli ekki vera meiri til að bæta úr í þessum efnum og það að hæstv. ráðherra skuli ekki geta sagt okkur neitt til um framtíðarhugmyndir sínar eða ráðuneytisins varðandi málefni hjólreiðamanna er auðvitað grafalvarlegt mál, sérstaklega þegar það er skoðað að íslenska ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að draga úr mengandi útblæstri vegna samgangna og þá sé ég ekki annað en að hér sé kjörið tækifæri fyrir hæstv. ráðherra til að láta til sín taka í þeim efnum og leggja þungt lóð á vogarskálarnar til þess að við getum staðið við skuldbindingar okkar hvað varðar alþjóðlega loftslagssamninga.

Einnig lýsi ég vonbrigðum mínum með að hæstv. ráðherra skuli segja okkur það hér að bannað verði að hjóla á reiðhjólum á tvöfaldaðri Reykjanesbraut og að menn skuli ekki enn vera farnir að hugsa um það hvernig skuli leysa það mál. Það er alveg augljóst að leysa þarf það mál með sérstakri hjólreiðabraut aðskilinni frá aðalakveginum og að hæstv. ráðherra skuli stinga upp á því í ræðustól á Alþingi að hjólreiðarmönnum sem eru komnir hingað til lands til að hjóla um landið skuli boðið upp á það að fara með hjólin sín í rútu til Reykjavíkur lýsir bara fákunnáttu hæstv. ráðherra í þessum efnum. Við verðum að taka öðruvísi á þessum málum. Við verðum að leysa þessi mál þannig að sómi sé að og hæstv. ráðherra á ekki að segja okkur það hér á Alþingi að það sé í verkahring sveitarfélaganna að takast á við skipulagsmál af þessu tagi.

Auðvitað á að vera til öflug framtíðaráætlun í ráðuneyti samgöngumála sem fjallar um hjólreiðar og það að benda á axlirnar sem nú eru til staðar sem einhverja lausn er bara stórhættulegt því að þær eru til þess að bílar geti farið út af og vikið hver fyrir öðrum og það er stórhættulegt fyrir hjólreiðamenn að láta sjá sig á þessum öxlum.