Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 14:50:32 (5727)

2001-03-14 14:50:32# 126. lþ. 89.5 fundur 497. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar er að ég hef orðið áþreifanlega vör við vaxandi ugg meðal fólks vegna aukningar krabbameinstilfella og hugsanleg tengsl við staðsetningu háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra. Hópur fólks á Selfossi er nú afar uggandi vegna fyrirhugaðs 32 metra hás fjarskiptamasturs inni í miðjum bænum. Það spyr: Er hér hætta á ferðum?

Á Íslandi hafa ekki verið settar neinar reglur um leyfilegan styrk rafsegulsviðs en nýlegar erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að rafsegulsvið hvers konar geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks og jafnvel valdið krabbameini. Það er því ekki fráleitt að tala um mengun. En hvernig hefur rafmagn og rafsegulmengun áhrif á heilsu fólks? Er hugsanlegt að hjá þeim sem búa í nágrenninu geti staðsetning þessara mannvirkja valdið heilsuskaða? Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira í þá átt að skoða umhverfi okkar til að komast að því hvort orsakavalda að sjúkdómum og vanheilsu sé að finna þar.

Nýlega hafa verið að berast fréttir um það að nú í fyrsta skipti hefur opinber bresk stofnun viðurkennt opinberlega að tengsl geti verið á milli krabbameinstilfella og háspennulína. Það er faraldsfræðingurinn Sir Richard Doll sem kemur nú fram með niðurstöður þess efnis að börn sem búa í grennd við háspennulínur eigi frekar á hættu að fá krabbamein en önnur börn. Það var Sir Richard sem fann tengslin á milli reykinga og lungnakrabba á 6. áratugnum. Rannsóknarhópur í háskólanum í Toronto og Hospital for Sick Children tilkynnti að rannsóknir hefðu sýnt að börn sem búa við há gildi rafsegulsviðs ættu meira á hættu að fá hvítblæði en börn sem ekki bjuggu við slík skilyrði. Þeir gerðu mælingar á heimahögum veikra barna og komust að því að 2--4 sinnum meiri líkur væru á að börn með hvítblæði hefðu búið við hágildi rafsegulsviðs.

Þá hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Hið sama kann að gilda um fullorðna en um það er ekki vitað. Ég tel nauðsynlegt að hugað sé að þessum þáttum og hvort ekki sé tímabært að koma háspennulínum t.d. í jörðu þar sem íbúðabyggð er. Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

Hefur farið fram eða er fyrirhuguð rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann?