Rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:02:00 (5733)

2001-03-14 15:02:00# 126. lþ. 89.5 fundur 497. mál: #A rannsókn á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi DrH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls.

Það hefur komið fram í viðtölum við krabbameinslækna að umhverfisþættir vega um 70% því læknavísindin væru komin svo langt í þróun lyfja við krabbameini. Kenningar eru um að tengja megi tíðni heilaæxla við notkun farsíma en ekki er hægt að draga neinar öruggar ályktanir um skaðsemi geislunar vegna notkunar farsíma eða farsímastöðva á heilsu manna. Engu að síður hafa yfirvöld víða erlendis gripið til varúðarráðstafana, m.a. í sveitarfélaginu Nesjöen í Svíþjóð þar sem víða er nú bannað að reisa loftnet og sendimöstur fyrir GSM-síma vegna geislunar.

Farsímafyrirtæki í Sviss hefur verið dæmt til að taka niður GSM-loftnet þar sem talið er að það valdi sjúkleika hjá mönnum. Við eigum að fara að öllu með gát og rannsaka alla þessa þætti og gera síðan ráðstafanir í kjölfarið. Varúðarreglu er oft beitt við lagningu orkuflutningslína og er þá leitast við að hafa þær ekki nálægt byggingum eins og barnaskólum eða barnaheimilum.

Sem dæmi má nefna norska reglugerð þar sem ákveðið er að staðir þar sem börn dveljast langdvölum séu ekki nær 400 kw-línu en 18 metra.

Heilbrigðiskerfi okkar er eitt það besta í heimi og við Íslendingar eigum að vera í forustu á því sviði. Þrátt fyrir fámennið eigum við að hafa þann metnað að rannsaka málin sjálf en bíða ekki alltaf eftir niðurstöðum erlendis frá. Það er t.d. hægt í krabbameinsrannsóknum þegar verið er að spyrja sjúklinga hvar þeir hafa búið sl. 10 ár. Það væri t.d. liður í faraldsfræðilegri rannsókn.