Viðhald sjúkrahúsbygginga

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:09:22 (5736)

2001-03-14 15:09:22# 126. lþ. 89.6 fundur 513. mál: #A viðhald sjúkrahúsbygginga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi vísar í lög frá 1990 og spyr af hverju ekki hafi verið samin reglugerð við þessi lög frá 1990. Ég hef ekki nokkur einustu svör við því vegna þess að þó að ég sé búin að sitja lengi í þessum stól þá var ég ekki ráðherra 1990 og heldur ekki 1991 en mjög eðlilegt hefði verið að semja reglugerð í framhaldi af þeirri lagabreytingu sem var 1990.

Varðandi það að sveitarfélög greiði 15% af meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum hefur það verið við lýði allt frá 1990 og ekki hefur verið neitt ósætti milli ríkis og sveitarfélaga vegna þessa máls fyrr en nú að upp koma nokkur mál bæði frá Akureyri, Selfossi og eitt annað mál sem eru til athugunar í ráðuneytinu.

Sagt er að ekki sé samráð haft þegar farið er í meiri háttar viðhald eða meiri háttar tækjakaup en minna verður á að stjórnir eru skipaðar að meiri hluta af sveitarstjórn. Sveitarstjórnum ætti að vera vel ljóst hvernig rekstri er háttað og í hvaða tilvikum er verið að tala um meiri háttar viðhald eða tækjakaup. Það er í þeim tilvikum þar sem stofnunin sjálf getur ekki innan fjárheimilda sinna greitt tækjakaupin eða viðhaldið og þá hefur þessi regla gilt eins og ég segi og um það hefur verið samkomulag. En ég fæ tækifæri til að ræða þetta betur á eftir því að það er framhaldsspurning frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur einmitt um þetta mál og um þær breytingar sem eru í vændum varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga hvað þetta varðar.

En í blárestina, af því að ég sé að ég hef smátíma, þá verður líka að minna á að sveitarfélögin eru í flestum tilvikum, ekki hér í Reykjavík að vísu, eigendur að hluta til að þessum stofnum.