Rekstur heilsugæslustöðva í Reykjavík

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:24:04 (5743)

2001-03-14 15:24:04# 126. lþ. 89.7 fundur 514. mál: #A rekstur heilsugæslustöðva í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka heilbrrh. svörin. Fyrirspurn mín lýtur fyrst og fremst að því að eftirspurn Reykvíkinga eftir þjónustu heimilislækna er langt umfram framboð á þjónustunni eins og mál standa í dag. Biðtími eftir að fá tíma á stofu hjá heimilislækni er talinn vera of langur og fleiri heimilislækna vantar til að fullmannað geti talist.

Þótt talsvert hafi áunnist og ráðuneyti heilbrigðismála og ráðherra hafi lagt sig fram um að fjölga læknum, hefur það ekki dugað til þegar fólk flyst til Reykjavíkur í þeim mæli sem verið hefur. Þeir læknar sem enn eru í vinnu mega ekki brenna út vegna þrýstings og álags, þeir þurfa að fá sín frí og þurfa að geta farið í frí jafnvel þótt ekki fáist afleysari. Þetta er því vandamál fólksins sem ekki kemst að lækninum. Þá er vitað að samhengi er milli þjónustunnar í Reykjavík og á landsbyggðinni.

Fleiri lönd standa frammi fyrir því að vanta heimilislækna og eru Norðmenn og Svíar þar á meðal. Frést hefur að sænska stjórnin hafi ákveðið að leggja stóraukna áherslu á grunnþjónustuna, á heilsugæsluna, og verja til þess verulegum fjármunum, milljörðum sænskra króna. Til stendur þar í landi að styrkja myndarlega faglegan grundvöll heilsugæslunnar og er samráð haft um það við fagfélög heimilislækna.

Mér sýnist því að þess geti verið þörf hér á landi að taka ákvörðun af svipuðu tagi og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að gera nýtt átak og styðja við heilbrrh. í því að heilsugæslunni verði gert kleift að sinna hlutverki sínu eins og hún best getur gert og hefur metnað og þekkingu til að gera. Gerð þjónustusamninga við heilsugæsluna, og þá á ég líka við núverandi starfandi stöðvar, getur verið fyrsta skrefið og eitt af mikilvægum skrefum.