Rekstur heilsugæslustöðva í Reykjavík

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:26:13 (5744)

2001-03-14 15:26:13# 126. lþ. 89.7 fundur 514. mál: #A rekstur heilsugæslustöðva í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að okkur vantar fleiri heilsugæslulækna. Við þurfum bæði að framleiða fleiri heilsugæslulækna og fá þá heim sem eru erlendis og við höfum ýmislegt gert til þess, t.d. að hækka launin verulega. En við verðum að tala alveg hreint út því að þetta er ekki hvað síst launaspursmál. Ég átti einmitt ágætan fund með félagsmönnum í Félagi heilsugæslulækna ekki alls fyrir löngu og það er alveg ljóst að við erum að tala um laun og samanburð á launum.

Hv. fyrirspyrjandi kom hérna inn á áðan að Svíar væru að setja stóraukna fjármuni í heilsugæslu sína. Það er alveg hárrétt, þeir eru að því. Við gerðum það líka 1996, ætli við höfum ekki á þessum tíma aukið fjármagn um svona 2,5 milljarða í það heila tekið. Við höfum fjölgað heimilislæknum. Við töluðum um að okkur vantaði heimilislækna og við höfum fjölgað þeim um 15 á Reykjavíkursvæðinu núna á tæpum fjórum árum. Það er bara ekki nóg, það heldur ekki í við fjöldann sem vantar.

En varðandi Svíana og fjármunina sem þeir eru að leggja í heilsugæsluna, þeir eru að færa þá til. Þeir eru að færa þá til úr sérfræðiþjónustunni í heilsugæsluna. Þetta eru ekki nýir fjármunir. Um það efast ég að væri sátt hjá þjóðinni, a.m.k. þyrftum við að taka æðigóðan tíma að fara ofan í grunninn ef við ætluðum að gera eins og Svíar eru að gera núna. Ég held að við þurfum að athuga það.