Sjálfstætt starfandi heimilislæknar

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:33:14 (5747)

2001-03-14 15:33:14# 126. lþ. 89.8 fundur 515. mál: #A sjálfstætt starfandi heimilislæknar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SoG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ástu Möller og Katrínu Fjeldsted fyrir þessa fyrirspurn, en vil um leið beina athygli að stöðu heimilislækna á landsbyggðinni.

Í mars 1999 var að frumkvæði landlæknis skipaður vinnuhópur í þeim tilgangi að vinna tillögur að uppbyggingu náms í landsbyggðarlækningum og landsbyggðarhjúkrun. Vinnuhópurinn skilaði skýrslu til landlæknis í desember sama ár og í upphafi þeirrar skýrslu segir, með leyfi forseta:

,,Undanfarin ár hefur borið á skorti á heimilislæknum hérlendis, einkum í dreifbýli. Þetta á einnig við um aðrar heilbrigðisstéttir, ekki hvað síst hjúkrunarfræðinga. Kannanir og spár benda til þess að þetta ástand muni versna á næstunni ef ekkert verður að gert.``

Þetta var í desember 1999 og enn hefur ekkert gerst til þess að bæta stöðu heimilislækninga á landsbyggðinni. Þetta er mál sem þarf endilega að halda opnu. Það er því mjög mikilvægt að hefja stétt heimilislækna upp til jafns við stétt sérfræðinga, til þess að ungir læknar fáist til að sérhæfa sig á þessu sviði.