Sjálfstætt starfandi heimilislæknar

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:34:31 (5748)

2001-03-14 15:34:31# 126. lþ. 89.8 fundur 515. mál: #A sjálfstætt starfandi heimilislæknar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Tryggingastofnun ríkisins hefur farið með samninga við sjálfstætt starfandi sérfræðinga í læknisfræði sem fá greitt samkvæmt reikningum og heimilislækna sem eru sjálfstætt starfandi, án þess að stofnunin sem slík hafi nokkurt hlutverk samkvæmt lögum í að skipuleggja heilbrigðisþjónustu, hvað þá heldur að stofnunin reyndi að tengja samninga sína við annað sem var að gerast í heilbrigðismálum. Mörgum hefur þótt rétt að samningar við sjálfstætt starfandi lækna fari fram nær grasrótinni, þ.e. að t.d. í Reykjavík tæki stjórn heilsugæslunnar við því hlutverki. Á sama hátt má segja að heilbrigðisþjónusta t.d. á Austurlandi, hin nýja Heilbrigðisstofnun Austurlands, þurfi að hafa svigrúm til að ráða sinni heilbrigðisþjónustu og hafa um það að segja hvernig að henni er staðið. Þannig hefur reyndar verið unnið í tíð núverandi heilbrrh. Þess vegna er mikilvægt að hvetja til þess að haldið verði áfram á sömu braut og rýmkað til í rekstri heilsugæslustöðva í Reykjavík.

Samstarf heimilislækna, allra heimilislækna, t.d. við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er afar mikilvægt. Sé samið um að slíka starfsemi megi reka sjálfstætt, hlýtur það að geta verið af hinu góða.