Sjálfstætt starfandi heimilislæknar

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:35:49 (5749)

2001-03-14 15:35:49# 126. lþ. 89.8 fundur 515. mál: #A sjálfstætt starfandi heimilislæknar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni lýsti ég vanda heilsugæslunnar eins og hún snýr við mér í Reykjavík. Mér finnst vanta svör frá ráðherra hvaða rök séu fyrir því að hafna umsóknum sjálfstætt starfandi heimilislækna í þeirri stöðu sem við erum í í dag, að það vantar heimilislækna og vilji er fyrir hendi hjá fólki, heimilislæknum sem eru m.a. erlendis, að koma heim, en á þessum forsendum. Svör hæstv. ráðherra voru í þá veru að heilsugæslan í Reykjavík eigi að hafa yfirumsjón með heilsugæslunni. Ég bendi á að það eru lög og reglugerðir sem segja til um hvers konar þjónustu á að veita og það er landlæknir sem á að hafa eftirlit með því. Og það er enginn sem segir mér að heimilislæknar sem eru sjálfstætt starfandi veiti eitthvað verri þjónustu, öðru nær. Ég held þeir veiti einmitt mjög góða þjónustu.

Í fyrri ræðu minni nefndi ég að heilbrigðisyfirvöld hafa haldið fram kerfi heilsugæslustöðva. Stefnan hefur verið rökstudd á þann veg að um heildstæða þjónustu við fjölskylduna sé að ræða, með því að allir þættir í heilsugæslu fjölskyldunnar sé veittir frá sömu stofnun. En stefna heilbrigðisyfirvalda hefur hins vegar ekki gengið upp, m.a. vegna erfiðs aðgengis að heilsugæslunni og skorts á heimilislæknum. Það sérstaka ástand hefur nú skapast að fólk sem hefur ekki náð viðtali við lækni sinn á dagvinnutíma, bíður til klukkan fimm á daginn og leitar þá til Læknavaktarinnar, sem er rekin af heimilislæknum sjálfum og þar geta þeir bæði fengið viðtal við lækni og vitjun heim ef svo ber við. Aukning á þjónustu við móttöku Læknavaktarinnar hefur verið fjórföld á 14 ára tímabili, frá 1987 til dagsins í dag. Þetta er góð og skilvirk þjónusta og miðað er við að fólk þurfi aðeins að bíða í hálfa klukkustund eftir þjónustu í móttöku og að hámarki tvo tíma eftir vitjun. Og það merkilega er að þessi þjónusta er rekin af sömu læknum og eru starfandi á heilsugæslustöðvunum og fólk getur átt von á því að hitta lækninn sinn á kvöldin sem hann fékk ekki vitjun hjá að deginum. Þetta segir mér að einkarekin heilbrigðisþjónusta er skilvirk og þetta sýnir mun á þessum tveimur kerfum.