Sjálfstætt starfandi heimilislæknar

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:38:06 (5750)

2001-03-14 15:38:06# 126. lþ. 89.8 fundur 515. mál: #A sjálfstætt starfandi heimilislæknar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Einkarekin heilbrigðisþjónusta er skilvirk og þess vegna eigum við að einkareka allar heilbrigðisstofnanir að mér skilst. Það er nú bara þannig að það er ekkert endilega sjálfgefið að einkarekin heilbrigðisþjónusta sé eitthvað skilvirkari, það er ekkert sjálfgefið. Er það eitthvað sjálfgefið t.d. að heimilislæknir sem fær samning hjá Tryggingastofnun ríkisins, nú er ég ekkert að segja að það sé útilokað að fá samning hjá TR, en er það eitthvert grundavallaratriði að hann sé kannski fyrir hádegi á stofu hjá heilsugæslunni og eftir hádegi á samningi hjá TR? (Gripið fram í: Nei.) Nei, það er það nefnilega ekki. Og þess vegna held ég að við þurfum að ná samkomulagi og samstöðu um þetta og sérstaklega við heimilislækna. Ég hef einmitt rætt mjög við þá um það kerfi sem er í dag og hvort það mundi bæta úr öllu ef TR kæmi líka og greiddi. Ég held að grundvallaratriðið sé að menn verði sáttir við launin sín og sáttir við þá aðstöðu sem þeir hafa.

Hv. þm. Ásta Möller sagði áðan að ég hefði ekki svarað fyrirspurn hennar, af hverju það séu bara 15 heimilislæknar sem séu sjálfstætt starfandi, af hverju fleiri hafi ekki bæst við. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að ég fór ekkert nákvæmlega út í það vegna þess að ég held að öllum sé ljóst, a.m.k. þeim sem sitja hér á þingi, að það eru sérstakar reglur sem gilda áður en slíkt leyfi er gefið og þar kemur Tryggingastofnun að og héraðslæknirinn í Reykjavík sem gefur þetta leyfi. Þar hefur það strandað nákvæmlega en við viljum hafa það kerfi sem er skilvirkast og að sátt sé um það innan heilsugæslunnar. Þess vegna tel ég einmitt mjög mikilvægt, eins og ég hef boðað til, að setjast aftur með Félagi heimilislækna og finna núna nýjar lausnir. Ekki bara eina, ekki bara einn krana, heldur almenna lausn.