Kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 15:44:12 (5752)

2001-03-14 15:44:12# 126. lþ. 89.9 fundur 518. mál: #A kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þetta er eiginlega eins konar framhald í næsta blaði því við vorum að ræða þessi mál áðan, kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga varðandi sjúkrastofnanir, þannig að við tökum bara upp þráðinn þar sem hann slitnaði áðan.

Ég skrifa undir mörg bréf. Og varðandi stofnkostnað hjá heilbrigðisstofnunum og hvort það er pokakerfi eða eitthvert annað kerfi, þá legg ég það kannski ekki alveg nákvæmlega á minnið fyrr en þær upphæðir verða sem virkilega tekur í. En hv. þm. skildi kannski ekki alveg það sem ég var að fara með áðan, hvernig sátt hefur verið hingað til um það hvernig menn skipta á sig þessum kostnaði. Það er einfaldlega þannig að ef hluturinn er það stór að hann rúmast ekki innan venjulegra fjárlaga, þá kemur heilbrrn. inn í og greiðir, eins og kom fram er hv. þm. las upp bréf frá mér áðan. Sú regla hefur gilt að 15% af því komi þá frá sveitarsjóði, enda á sveitarsjóður yfirleitt hlut í viðkomandi stofnun og er líka með fólk þar í meiri hluta í stjórn. En það er annar handleggur.

[15:45]

En aðalspurningin er þessi: Eigum við að breyta þessu? Það kom nefnilega fram hjá hv. þm. áðan hver er undirrót óánægjunnar? Undirrót óánægjunnar er auðvitað sú sem hv. þm. sagði að Reykjavíkurborg þarf ekki að greiða það sem önnur sveitarfélög eru að greiða. Þess vegna tók ég þetta upp í ríkisstjórn fyrir margt löngu. Í framhaldi af því skipaði félmrh. nefnd sem í sitja fulltrúar ríkisins og sveitarfélaganna og sú nefnd á að skila af sér eigi síðar en í september á þessu ári. Ég býst við því að menn komist að samkomulagi um að þessum reglum verði breytt. Ég vona að ég hafi svarað fyrirspurn hv. þm. hvað þetta varðar.