Fjöldi öryrkja

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 16:00:21 (5759)

2001-03-14 16:00:21# 126. lþ. 89.10 fundur 544. mál: #A fjöldi öryrkja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Ásta Möller:

Herra forseti. Það birtast athyglisverðar upplýsingar í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins þar sem m.a. er fjallað um öryrkja. Þar kemur fram að þegar tekið er tillit til hækkunar aldurs og fólksfjölgunar hér á landi hefði öryrkjum ekki fjölgað milli áranna 1976--1996, reyndar jafnvel fækkað. En hins vegar kom jafnframt fram að þeim hefði fjölgað verulega sem skilgreindir eru sem 75% öryrkjar, þannig að skiptingin milli 75% öryrkja og þeirra sem eru á örorkustyrk eru 90% á móti 10%. Ljóst er að þetta er ekki vegna þess að veikindi hafi aukist meðal þjóðarinnar heldur er það kerfisbreyting sem gerir það að verkum að þessi skipting breytist svona, þ.e. að réttur 75% öryrkja til að fá aukinn stuðning vegna læknisþjónustu og vegna notkunar lyfja kom inn í kerfið 1980 sem leiddi til þess að fólk færðist meira í þennan hærri flokk.

Ég tel að viðfangsefni í framtíðinni sé að skilgreina betur réttindi öryrkja, þannig að það sé ekki kerfið sem ákveði örorkuna heldur hin raunverulega örorka og skerta starfsorka.