Byggðakvóti

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:05:26 (5764)

2001-03-14 18:05:26# 126. lþ. 89.11 fundur 499. mál: #A byggðakvóti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir að fyrirspyrjandi sé að vísa til bréfs sem stjórn Byggðastofnunar ritaði mér þann 19. apríl á síðasta ári. Í bréfinu fór stjórn Byggðastofnunar þess á leit við mig að ég beitti mér fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiða þannig að byggðakvótinn yrði aukinn úr 1.500 lestum í 3.000 lestir. Í svari mínu til stjórnar Byggðastofnunar við þessu erindi vísaði ég til vinnu stjórnskipaðrar nefndar sem hæstv. sjútvrh. skipaði haustið 1999 til að vinna að sátt um stjórn fiskveiða. Í störfum sínum er nefndinni m.a. falið að huga að hagsmunum byggðanna. Ég taldi þá og tel enn að slík sátt þurfi að byggja á málamiðlunum ólíkra hagsmuna. Því gæti það spillt fyrir því að sátt takist í nefndinni ef farið yrði að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða áður en hún skilar tillögum sínum. Ég er enn sömu skoðunar og ég var þá. Á meðan að umrædd nefnd er að sinna sínu vandasama verkefni, þá mun ég ekki leggja til að gerðar verði breytingar á fiskveiðilöggjöfinni.