Greiðslur vegna tjóna af völdum jarðskjálfta

Miðvikudaginn 14. mars 2001, kl. 18:29:39 (5776)

2001-03-14 18:29:39# 126. lþ. 89.13 fundur 516. mál: #A greiðslur vegna tjóna af völdum jarðskjálfta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í svari sem barst við fyrirspurn minni í vetur frá hæstv. viðskrh. um samanburð á greiddum bótafjárhæðum og endurstofnverði þeirra íbúðarhúsa sem urðu ónýt í jarðskjálftunum í júní sl. sumar kom fram að um verulegan mismun er að ræða. Bótagreiðslur miðað við brunabótamat voru um 105 millj. kr. lægri en endurstofnverð íbúðarhúsa. Þó er endurstofnverð í flestum tilvikum lægra en áætlað endurbyggingarverð þannig að reikna má með að áætlaður mismunur á greiddum bótum vegna þessara tjóna og raunverulegs kostnaðar, sem þær fjölskyldur sem um ræðir bera, sé í raun mun hærri.

Svo dæmi sé tekið er íbúðarhúsið á Árbakka sem var 133 fermetar að stærð, brunabótamatið var 6.048.000, endurstofnverð samkvæmt fasteignamati ríkisins 11.389.000, sjálfsábyrgðin var 302.400 kr., kostnaður við að rífa niður húsið, þrif og akstur á hauga um 614 þús. kr., endurbyggingarkostnaður á sambærilegu fullbúnu húsi er áætlaður 15,9 millj. Þá er miðað við 120 þús. kr. á fermetra. Við mat á endurbyggingarkostnaði verður auðvitað að hafa í huga að allt skemmdist, t.d. föst heimilistæki á borð við eldavél, salerni, sturtu, sökkullinn var ónýtur og töluverður kostnaður er við að koma inn í nýtt hús rafmagni, vatni, síma, koma frárennsli í lag o.s.frv. Kostnaðurinn er því varlega áætlaður tæpar 16 millj.

Ef skoðað er hvað eigendur Árbakka fengu þá er það þannig að greiddar bætur eru 6.048.000, en frá dragast 916.400 kr., sem er annars vegar sjálfsábyrgðin og hins vegar niðurrif og þrif. Greiddar bætur eru því 5.131.600 kr. Það er sú upphæð sem þeir einstaklingar sem áttu íbúðarhúsið á Árbakka hafa úr að spila þegar farið er í það að reisa nýtt íbúðarhús. Það sér hver maður að hér er ekki hægt að tala um að þessi fjölskylda sé jafnsett og áður þar sem kostnaðurinn er áætlaður um 16 millj. við sambærilegt íbúðarhús. Þá er ekki verið að tala um bætur fyrir það sem er óbætanlegt og þann skaða sem þessi fjölskylda, eins og margar aðrar, varð fyrir að öðru leyti hvað varðar útihús og ýmsa muni sem verða aldrei bættir af tryggingum.

Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum þar sem um er að ræða verulegan mismun hvað varðar greiddar bætur og raunverulegan kostnað vegna endurbygginga eigna sem eyðilögðust í jarðskjálftunum og langur vegur virðist vera frá því að þær fjölskyldur sem misstu aleiguna í jarðskjálftunum í júní sl. sumar séu jafnsettar fjárhagslega og þær voru áður.

Það sameiginlega tryggingakerfi sem við búum við hvað varðar bætur eftir náttúruhamfarir virkar ekki. Því leyfi ég mér að beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. viðskrh.:

1. Hver er áætlaður mismunur á útgreiddum bótum vegna þeirra altjóna sem urðu á íbúðarhúsum í jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000 og raunverulegs endurbyggingarkostnaðar sömu eigna?

2. Verður þessi mismunur greiddur með ríkisframlagi eða viðlagatryggingu? Ef svo er, þá hvenær og verður tekið tillit til 5% sjálfsábyrgðar og kostnaðar við niðurrif og frágang þeirra íbúðarhúsa sem skemmdust?