Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 10:32:28 (5781)

2001-03-15 10:32:28# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, Frsm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[10:32]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá hv. iðnn. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja.

Frv. þetta gengur út á að heimilt verði að sameina Hitaveitu Suðurnesja, sem er í eigu ríkissjóðs að 20% hluta og sveitarfélaga á Suðurnesjum, og Rafveitu Hafnarfjarðar sem er í eigu bæjarsjóðs Hafnarfjarðar. Meiningin er að stofna hlutafélag um reksturinn undir nafninu Hitaveita Suðurnesja hf. Markmið þess er að auka markaðssvæði Hitaveitu Suðurnesja og jafnframt vinnslusvæðið og með slíkri sameiningu nær vinnslusvæðið yfir Reykjanesskagann og skapar gífurleg sóknarfæri.

Nefndin fékk á fund sinn fulltrúa frá iðnrn., Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum ásamt bæjarstjóranum í Hafnarfirði sem talsmanns Rafveitu Hafnarfjarðar.

Eins og fram kom við 1. umr. ríkir mjög almenn sátt um þetta frv. innbyrðis milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og hins vegar á milli Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar og allir aðilar vænta mikils af þessari lagabreytingu eins og fram hefur komið.

Nefndin mælir með samþykkt frv. þó með einni orðalagsbreytingu við 2. gr. Í stað orðsins ,,eftir`` komi: við, þ.e. við samrunann verði eignarhluturinn eins og fram kemur í 2. gr. Telja nefndarmenn að eðlilegra sé að nota þar orðið ,,við`` því að þannig verður eignarhlutinn við sameininguna en kann auðvitað að breytast eftir hana í framtíðinni. Um þetta þarf ekki að hafa fleiri orð.

Undir nál. rita auk þess sem hér stendur, hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Drífa Hjartardóttir, Árni Ragnar Árnason og Árni Steinar Jóhannsson, en sá síðastnefndi þó með fyrirvara.

Herra forseti. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri smávægilegu breytingu sem hér var getið um.