Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 10:45:47 (5784)

2001-03-15 10:45:47# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður iðnn. gerði grein fyrir því að ég hefði ekki verið á þessum fundi, það er alveg rétt. Ég var ekki á fundinum og m.a. af þeim ástæðum skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Ég var á fundi á Ísafirði og gat ekki verið á báðum stöðum í einu. Það er m.a. þess vegna sem ég geri athugasemdir við þau vinnubrögð að málið skuli vera tekið fyrir í nefndinni á þennan hátt án þess að það fái eðlilega umfjöllun. Ég geri mér líka grein fyrir því og staðfesti það að skotið var á aukafundi til þess að afgreiða málið formlega úr nefndinni. En því verður ekkert á móti mælt að þetta eru vinnubrögð sem eru ekki heppileg fyrir þingið, þetta á að ganga sinn gang, og ég hefði viljað fá inn miklu fleiri til umsagnar.

Varðandi Keflavíkurflugvöll, þá er það megnasti misskilningur hjá hv. þm. að ég sé eitthvað að leggjast gegn því og auðvitað er eðlilegt að flugvallarsvæðið og ameríski herinn kaupi orku af Hitaveitu Suðurnesja, það er ekki það sem ég er að tala um. Ég var að tala um að þetta væri samofið samningum við ameríska herinn, auðvitað er það svo. Það gildir um alla þessa hluti, raforkuna, hafnarmál og það gildir nú síðast um fráveitumál. Þetta er samvinnuverkefni og spurning hvernig því er stillt upp og auðvitað kemur utanríkisþjónustan og utanrrn. að þeim málum með fyrirtækinu. Það er enginn að tala um að menn eigi ekki að hafa samvinnu og samráð um hvernig þeir standa best að þessum málum, ég vil að það komi skýrt fram.