Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:06:30 (5791)

2001-03-15 11:06:30# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:06]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Athugasemdir mínar geta vart talist tefja framgöngu málsins en eins og við vitum stendur til að keyra málið í gegnum þingið á einni og hálfri eða tveimur vikum. Það er ákaflega stuttur tími ef við lítum á það hversu stórt mál hér er um að ræða.

Gagnrýni mín lýtur að okkur þingmönnum. Ég er í sjálfsgagnrýni hér og vil að hv. þm. viti það. Það stendur upp á framkvæmdarvaldið, hv. Alþingi og framkvæmdarvaldið, að forgangsraða t.d. í þjóðlendumálunum. Ætli það hefði ekki verið okkar hlutverk að koma hlutum þannig fyrir að þjóðlendumálin væru fyrst afgreidd þar sem þrýstingurinn er mestur? Það er einmitt hér umhverfis höfuðborgarsvæðið og Reykjanesið. Auðvitað getum við beitt afli okkar til að koma slíku í gegn. Hér eru langmestu hagsmunirnir í húfi, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja. Við gerum okkur öll grein fyrir því að þetta eru metnaðarfull fyrirtæki og þeir menn sem þeim stjórna. Auðvitað skapast þar samkeppni og þá er mikilvægt, virðulegi forseti, að menn fái skjóta afgreiðslu og þessi mál séu frá eins fljótt og kostur er. Það hefði kannski verið nær fyrir óbyggðanefndina að fara í þessi mál hér í staðinn fyrir að setja í forgang að djöflast á bændum austur í sveitum.