Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:28:19 (5799)

2001-03-15 11:28:19# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, GAK
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum í 2. umr. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja. Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni. Ég fór nokkuð í gegnum sjónarmið mín í 1. umr. um þetta mál.

Ég vil hins vegar ítreka að miklu er hlutskipti Suðurnesjamanna skárra en það hlutskipti sem okkur er ætlað á Vestfjörðum varðandi það frv. sem liggur fyrir þinginu um Orkubú Vestfjarða. Hér er sett upp metnaðarfull stefnumörkun um það hvað fyrirtækið geti gert fyrir það landsvæði sem það hefur verið reist á. Það er að eflast og verða stærra og öflugra. Það er að stefna að því að styrkja atvinnulífið á svæðinu, það er að stefna til þess að tryggja íbúum orku og að stefna að því að það geti orðið fjölbreyttara og öflugra mannlíf og atvinnulíf á Suðurnesjum.

Þetta hlutverk held ég að sé virkilega til framfara fyrir það svæði sem við ræðum hér um, þ.e. Suðurnes og Hafnarfjörð, og ég óska íbúum þar og þingmönnum til hamingju með að geta fjallað um þetta mál á þessum nótum miðað við þá framtíð sem kemur fram í stefnumörkun fyrirtækins.

Ég vil hins vegar ítreka að ég er afar ósáttur með það frv. sem hér hefur verið til umræðu og er búið að ræða við 1. umr. um Orkubú Vestfjarða þar sem stefnumörkunin er eingöngu sú að selja það fyrirtæki til þess að greiða skuldir við ríkið.

Ef einhver landshluti hefði þurft á því að halda að efla atvinnustarfsemi sína þá væru það Vestfirðir. Það kom síðast fram í gær í sérstakri skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun. Sú skýrsla kemur mér reyndar ekki á óvart því að ég hef haldið þessu fram síðan 1990 þegar ég varaði við því hvaða afleiðingar fylgdu þeirri lagasetningu um tilfærslu aflaheimilda sem voru þá sett inn og gerð að lögum nr. 38 um stjórn fiskveiða.

Vestfirðingar þurfa á öllu öðru að halda en að missa frá sér frekari atvinnutækifæri og missa frá sér möguleika til atvinnuuppbyggingar. Þess vegna segi ég að mikið hefði ég viljað sjá þá stefnumótun sem er inni í þessu frv. Vestfirðingum til handa en það hlutskipti sem okkur er ætlað í frv. sem liggur hér fyrir um Orkubú Vestfjarða sem er nánast neyðarleið sem okkur er skipað að fara.