Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:44:06 (5801)

2001-03-15 11:44:06# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:44]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þau efnisatriði sem hv. 5. þm. Norðurl. v. tók fram og rakti sem svo að þýddu í huga hans að draga ætti eitthvað meðferð þessa máls verð ég að viðurkenna að ég sé ekki í samhengi við þetta mál. Þjóðlendumálið eða framgangur þeirra laga og framkvæmd á ekkert undir þessum sérlögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nákvæmlega ekki neitt.

Væntanleg samkeppni í raforkumálum er frv. sem við þingmenn eigum von á að fá á þessu þingi samkvæmt yfirlýsingum hæstv. ráðherra en er enn ekki komið. Það á ekkert undir í því frv. sem við erum að ræða. Hins vegar varðandi það sem hv. þm. sagði og fleiri í flokki hans um meðferð málsins í hv. iðnn. verð ég að viðurkenna að fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni kom ekki til fundarins þegar málið var til umfjöllunar og rætt var við gesti nefndarinnar, umsagnaraðila, og enginn kom í hans stað frá þeim þingflokki. Ég minnist þess ekki að nokkur af fulltrúum þingflokksins hafi mælst til þess að málinu yrði frestað eða dregið frekar. Raunar verð ég að skilja það þannig að þó þeir haldi nú uppi málþófi séu þeir ekki í raun þeirrar skoðunar að það eigi að draga þetta mál. Ég dreg þann skilning af því hvernig þeir ræða málið þó þeir vilji þæfa það.