Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:51:33 (5806)

2001-03-15 11:51:33# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:51]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég beini orðum mínum enn til hæstv. forseta varðandi skilning manna á meðferð þingmála. Að eitthvað mál sé þroskaðra eða betur undirbúið en annað mál skuli réttlæta að það sé tekið fyrir í nefnd áður en það kemur fyrir þingið eru engin rök. Hver á að taka að sér slíka flokkun? Þetta er fáheyrð röksemdafærsla fyrir því hvaða mál megi fara til nefndar áður en Alþingi hefur afgreitt þau til hennar. Hver ætlar að taka að sér flokkun eins og hv. þm. gekk út frá? Hann sagði að einmitt þetta mál hefði verið svo sérstaklega þroskað að það hafi mátt taka til nefndar án þess að Alþingi fjallaði um það. Þetta er gert í hreinum undantekningartilfellum og þá hefur það verið rætt fyrir fram.

Ég vil taka þetta fram almennt séð í umgengni okkar um þingmál, ekkert endilega þetta mál hér. Ég geri ráð fyrir að þetta mál sé ekki einstakt. Þarna á ríkið hins vegar hlut að og eðlilegt að það leggi sína eðlilegu vinnu í undirbúning þess.

Ég ítreka, herra forseti, að þetta snýst um auðlindir og nýtingu þeirra. Ég fagna góðri stöðu og dugnaði hjá Hitaveitu Suðurnesja. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar að ríkið hefði átt að velja Reykjanes og umgjörð Reykjaness fyrst svæða til að ákvarða hvar skyldu vera þjóðlendur og hvar skyldu vera einkalönd, ekki síst í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem hér eru, bæði af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja.