Stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 11:58:39 (5810)

2001-03-15 11:58:39# 126. lþ. 90.1 fundur 520. mál: #A stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja# frv. 10/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[11:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég fá að vita hver er hin almenna þinglega meðferð mála. Hvenær skulu nefndir taka mál fyrir? Hæstv. forseti gat þess einmitt að veitt hefðu verið sérstök afbrigði varðandi þetta mál. Ég vil þá jafnframt að hæstv. forseti geri grein fyrir hinni almennu reglu sem fylgja beri við meðferð mála. Hvenær eiga nefndir að taka þingmál fyrir? Hver er hin almenna regla þar um?

Varðandi orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar þá vil ég geta þess að við þingmenn Vinstri grænna viljum að þetta mál lúti almennri meðferð eins og fyrirætlað er um orkumál á landinu. Það á ekki að taka nein fimm ár. Það á að koma fram lagafrv. núna á næstu dögum eða vikum um orkumál í landsins í heild. Það er eðlilegur hluti af því.

Hitt vil ég svo spyrja hv. þm. um, herra forseti: Hverju ætlar hv. þm. að svara bændum í Árnessýslu eða Skaftafellssýslu þegar þeir spyrja hv. þm.? Þeir gætu spurt: Hvers vegna þótti ástæða til að ríkið og kröfunefnd ríkisins setti fyrst kröfur á okkur þar sem ekki eru fyrirsjáanlegir eins miklir hagsmunir í jörðu og á Reykjanesi? Hvers vegna? Hverju ætlar hann að svara bændum í Skaftafellssýslu? Hverju ætlar hann að svara bændum í Árnessýslu? Ég tel að ef óbyggðanefnd mundi einhenda sér í þetta þá gæti hún lokið því. Hverju ætlar hann að svara þessum bændum?