Samningur um opinber innkaup

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:08:52 (5814)

2001-03-15 12:08:52# 126. lþ. 90.2 fundur 565. mál: #A samningur um opinber innkaup# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þáltill. sem ég mæli hér fyrir er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi um opinber innkaup sem gerður var í Marakess þann 15. apríl 1994. Þótt Ísland hafi enn ekki gerst aðili að þessum samningi, þá er það tímabært nú, enda eru opinber innkaup mikilvægur þáttur þeirra viðskipta sem stunduð eru í hverju ríki. Í dag eiga 28 ríki aðild að samningnum, þar á meðal aðildarríki Evrópubandalagsins auk Bandaríkjanna, Japans, Noregs og Sviss.

Samningurinn tekur til innkaupa á vegum ríkis, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila. Með aðild skuldbinda ríki sig til að veita fyrirtækjum í aðildarríkjum hans aðgang að innkaupum opinberra aðila á jafnréttis- og gagnkvæmnisgrundvelli þegar verðmæti innkaupanna fer yfir ákveðna fjárhæð. Þessi viðmiðunarmörk eru þau sömu og gilda á Evrópska efnahagssvæðinu og samningurinn tekur til sams konar innkaupa, þ.e. vörukaupa, kaupa á þjónustu og verksamninga. Ákvæði samningsins um vinnuferla við framkvæmd innkaupa eru sambærileg þeim reglum sem þegar gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.

Með aðildinni verður skylt að veita fyrirtækjum frá öðrum aðildarríkjum samningsins en EES-ríkjum aðgang að íslenskum innkaupamarkaði. Sá markaður hefur í raun lengi verið opinn en nú fá íslensk fyrirtæki með sama hætti tækifæri til að keppa á jafnréttisgrundvelli um þátttöku í útboðum í þeim ríkjum sem eiga aðild að þessum samningi.

Aðild að samningnum kallar á breytingar á ákvæðum núgildandi laga um innkaup opinberra aðila til að tryggja réttarstöðu svokallaðra birgja frá aðildarríkjunum sem ekki eru með staðfestu í EES-ríkjum og er gert ráð fyrir þeim breytingum í frv. til laga um opinber innkaup sem hæstv. fjmrh. mun leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Að öðru leyti eru gildandi lög hér á landi í samræmi við ákvæði samningsins.

Ég vil, herra forseti, að lokinni þessari umræðu leggja til að tillögu þessari verði vísað til hv. utanrmn.