Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 12:15:08 (5818)

2001-03-15 12:15:08# 126. lþ. 90.3 fundur 542. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (vinnutímareglur EES o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 126. lþ.

[12:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Helstu breytingarnar sem felast í frv. eru þær að lagt er til að lögfestar verði meginreglur tilskipunar Evrópuráðsins 93/104/EB frá 23. nóv. 1993, þ.e. vinnutímatilskipunin.

Lagðar eru til breytingar með hliðsjón af ákvæðum ráðsins nr. 89/391. Í þeim felst skylda vinnuveitenda til að gera eða láta gera áhættumat sem taki til þeirra þátta í vinnuumhverfinu sem geta skapað áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæði laganna um heilsuvernd starfsmanna. Þannig verði heilsuvernd starfsmanna ekki takmörkuð við þjónustu heilsugæslustöðva eða sjúkrahúsa eins og samkvæmt gildandi lögum. Þá er gert ráð fyrir að heilsuvernd starfsmanna geti verið veitt að hluta eða öllu leyti innan fyrirtækis.

Lagðar eru til nokkrar breytingar á ákvæðum laganna til viðbótar við það sem að framan greinir, svo sem á ákvæðum um dagsektir, stjórn Vinnueftirlits ríkisins, tekjur Vinnueftirlitsins o.fl. Þá er lögð til smávægileg breyting með hliðsjón af tilskipun ráðsins 94/33/EB um vinnuvernd barna og ungmenna.

Herra forseti. Meginreglur vinnutímatilskipunarinnar eru þær að aðildarríkjum er skylt að tryggja starfsmönnum rétt á eftirfarandi:

11 klukkustunda samfelldum daglegum hvíldartíma,

hvíldarhléi ef daglegur vinnutími er lengri en sex klukkustundir,

samfelldum 24 klukkustunda hvíldartíma í viku hverri sem tengist daglegum hvíldartíma,

að virkur vikulegur vinnutími sé takmarkaður og að meðalvinnustundafjöldi fari ekki yfir 48 klukkustundir, að yfirvinnu meðtalinni,

árlegu fjögurra vikna launuðu orlofi,

að venjulegur vinnutími næturvinnustarfsmanns fari ekki að jafnaði yfir átta klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili og að þetta viðmið sé hámark ef starfi fylgir mikið andlegt eða líkamlegt álag,

ókeypis heilsufarsskoðun næturvinnustarfsmanna og, sé þess kostur, tilfærslu í dagvinnustörf ef rekja má heilsufarsvandamál þeirra til næturvinnu.

Meginreglur vinnutímatilskipunarinnar eru ekki án undantekninga. Fráviksheimildir til skipunarinnar byggjast m.a. á því að skipulag vinnutíma í ákveðnum starfsgreinum er eða kann að vera með þeim hætti að æskilegt sé að heimila ákveðinn sveigjanleika við beitingu framangreindra meginreglna.

Nokkrar starfsgreinar eru sem fyrr segir sérstaklega undanþegnar gildissviði vinnutíma tilskipunarinnar en þær eru:

flutningur á landi, sjó, í lofti, með járnbrautarlestum og á skipagengum vatnaleiðum,

veiðar og önnur vinna á sjó,

læknar í starfsnámi.

Þegar Ísland er borið saman við önnur ríki ESB kemur í ljós að Íslendingar vinna lengstan vinnutíma en Hollendingar stystan. Flest ákvæði um vinnutíma hér er að finna í kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins en þó eru nokkur atriði um þetta efni eru í gildandi löggjöf.

Um heilsuvernd starfsmanna er það að segja að markmið hennar eru að:

Að fyrirbyggja óþægindi, sjúkdóma og slys sem rekja má til atvinnu fólks,

að auka þekkingu atvinnurekenda og launafólks á áhættuþáttum í vinnuumhverfi,

að draga úr fjarvistum starfsmanna og atvinnurekenda vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi, viðhalda heilsu á vinnustað og aðlaga störfin að þeim sem gegna þeim.

Þessum markmiðum verður helst náð með eftirfarandi: Áhættumati, fræðslu og ráðgjöf, heilsufarsskoðunum.

Hvað varðar tilskipun nr. 89/391, þá er markmið hennar að gera ráðstafanir til þess að stuðla að öryggi og að heilsa starfsmanna á vinnustöðum verði bætt.

Þau markmið falla að markmiðum laga nr. 46/1980 en þau eru, sbr. 1. gr. laganna, að tryggja:

öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu,

skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur og ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins.

Tilskipuninni hefur verið fylgt í framkvæmd að hluta hér á landi með reglugerðum samgrn. en þar er um að ræða reglugerðir um lágmarkskröfur sem varða öryggi, hollustuhætti og heilsu um borð í fiskiskipum.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.