Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:09:51 (5827)

2001-03-15 14:09:51# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar hv. þm. er ekki andmæli við neitt af því sem ég sagði áðan í ræðunni. Ég sagði að þetta væri ákveðin kjarabót. Engu að síður er ekki verið að afnema tekjutengingu við tekjur maka. Það er verið að setja viðbótarreglu sem er flóknari og í þeirri viðbótarreglu er brattari skerðing gagnvart eigin tekjum lífeyrisþegans um 67% meðan almenna reglan er 45%.

Herra forseti. Hv. þm. talar drýgindalega um það að hér sé verið að tryggja ellilífeyrisþega 43.000 kr. Það er alveg rétt, ég sagði líka að það væru 43.000 kr., þ.e. greiðslurnar úr almannatryggingunum plús tekjur einstaklingsins sem er verið að tryggja. Aftur á móti ef hann byggi ekki með maka, þ.e. ef hann byggi með syni sínum eða einhverjum öðrum, þá fengi hann a.m.k. 51.000 kr. þannig að það er verið að lækka þessa sem eru þó í hjúskap eða sambúð með sambýlismanni eða -konu niður um 8.000 kr. Það er staðreyndin í þessu máli, nákvæmlega eins og gagnvart öryrkjunum.

Samkvæmt skilningi bæði þeirra sem kærðu í öryrkjamálinu og einnig okkar sem skoðuðum málið og allra þeirra sem sáu dóminn fyrst, þá var það niðurstaða Hæstaréttar að ekki mætti tekjutengja vegna tekna maka, þ.e. ekki skerða tekjutrygginguna. Ég stend við þann skilning minn og ég tel að ekki sé farið að dómi Hæstaréttar, hvorki gagnvart öryrkjunum á sínum tíma né í lögjöfnuninni gagnvart ellilífeyrisþegunum vegna þess að ég tel að tekjutenging vegna tekna maka sé ekki heimil.