Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:15:39 (5830)

2001-03-15 14:15:39# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að með frv. sem hér er til umfjöllunar er verið að auka rétt aldraðra. Verið er að bæta kjör karla og kvenna á eftirlaunaaldri sem þiggja lífeyri frá almannatryggingakerfinu, það er verið að hækka stuðninginn úr 18.000 kr. upp í 43.000 kr. og hann er tryggður burt séð frá tekjum maka. Með frv. er verið að færa rétt aldraða til jafns við öryrkja eins og við munum frá því frv. sem var til umfjöllunar í janúar.

En það sem ég vildi helst fjalla um í andsvari er það sjónarmið sem kemur fram í ræðu hv. þm. að frv. geti strítt gegn jafnréttissjónarmiðum. Ég fæ því engan veginn stað. Ég bendi á að reglan er hin sama gagnvart konum og körlum. Svo vill til að þjóðfélagsaðstæður hafa verið þannig undanfarna áratugi að konur í kynslóðunum á undan okkur hafa verið meira heima en nú tíðkast sem þýðir að þær hafa minni rétt í lífeyrissjóðakerfinu. Ég mundi telja að það væri þá fyrst sem væru komnar einhverjar sérreglur út frá þessum aðstæðum sem jafnréttislög væru brotin því við leggjum upp með að lögin meðhöndli konur og karla jafnt og það gerir þetta frv. Það bara vill þannig til að hlutföll milli karla og kvenna sem lögin taka til eru ójöfn af þekktum ástæðum.