Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:19:36 (5832)

2001-03-15 14:19:36# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir málflutningur hv. þm. vera undarlegur. Það sem gerist með frv. er að þetta næði t.d. til 1.100--1.200 manns. Segjum að þetta séu 1.200 manns þá er verið að bæta kjör 1.188 kvenna og 12 karla. Ég get ekki séð annað en að ef einhvers staðar hallar á, þá er á karlana hallað í þessu sambandi því að verið er að bæta kjör kvennanna fyrst og fremst. Mér finnst þessi málflutningur hv. þm. vera farinn að snúast upp í andhverfu sína.

Annað sem ég vildi líka ræða er niðurstaðan sem varð í sambandi við þetta frv. Á fundi okkar í gær kom fram með gestum okkar, fulltrúum aldraðra, að frv. er niðurstaða af fundi þeirra og ríkisstjórnarinnar. Einnig kom fram að þetta væri niðurstaða af viðræðum, þetta væri áfangi sem þeir væru sáttir við. En jafnframt kom fram að samtökin þeirra mundu ekki sækja þetta mál lengra varðandi fortíðina öðruvísi en það væri einhver einstakur félagsmaður sem þyrfti á stuðningi að halda ef hann óskaði þess að sækja þetta mál til fortíðar. En ég bendi á og segi það aftur hér eins og ég sagði við 1. umr.: Ég tel fyrst og fremst að horfa eigi til framtíðar varðandi þessi mál og fortíðina eigi að láta kyrra liggja.