Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:21:34 (5833)

2001-03-15 14:21:34# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir þetta merkilegar upplýsingar sem koma fram hjá hv. þm. sem heldur því fram og fullyrðir hér í ræðustóli að þetta séu 1.100--1.200 konur. Við gátum ekki fengið upplýsingar um það í nefndinni hversu margar konur og hversu margir karlar væru í þessum 1.100--1.200 manna hópi, það getur vel verið að stjórnarliðar hafi verið búnir að fá þessar upplýsingar. (ÁMöl: Út frá þínum forsendum.) Ég talaði um öryrkjana. Þær upplýsingar voru komnar í fréttum og annars staðar.

Varðandi ellilífeyrisþega og fulltrúa þeirra á fundinum hjá heilbr.- og trn. í gær, þá kom það skýrt fram að það var ekkert samkomulag um frv., það var ekki samkomulag. (ÁMöl: Niðurstaða.) Þeir voru ósáttir við að fá ekki greitt aftur í tímann. En þeim var tilkynnt að svona yrði þetta og þeir yrðu að fallast á það. Annaðhvort eða ekki. Þeir sögðu frá því að það hefðu verið afarkostir sem þeir stóðu frammi fyrir og þeir vildu frekar þennan áfanga en ekki neitt. Það kom mjög skýrt fram að þeir voru ekki sáttir við að fá ekki greitt aftur í tímann og töldu jafnvel að þeir ættu rétt til 1994 eins og þeir lýstu yfir hjá heilbr.- og trn. áður þegar þeir komu fyrir þingnefndina í janúar. Þær fullyrðingar eru því aðeins úr lagi færðar að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða þessara hópa. Svo var alls ekki. Þetta var ákvörðun ríkisstjórnarinnar og þeir tóku því þótt þeir væru ósáttir við hana. Þetta var þó í áttina.