Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:23:39 (5834)

2001-03-15 14:23:39# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993. Við erum að fjalla um breytingar sem snúa að ellilífeyrisþegum. En þannig er mál með vexti eins og hér kom fram í ágætri yfirferð hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, sem fór yfir nál. minni hlutans og ég er aðili að, að þessar breytingar byggjast á öryrkjadómnum sem féll í desember. Það er ekkert launungarmál og ekkert óeðlilegt að sá dómur og sú löggjöf sem sett var í framhaldi af dómnum blandist inn í málflutning okkar hérna.

Aftur á móti er alveg ljóst að þingmenn sem og aðrir landsmenn túlkuðu dóm Hæstaréttar á tvo vegu. Ég er í þeim hópi sem túlkaði dóm Hæstaréttar á þann veg að öryrkjar hefðu átt að fá alveg sömu greiðslu lífeyrisbóta hvort sem þeir væru einhleypir eða í sambúð, 51.000 kr. Við töluðum um skerðingu þegar við fjölluðum um lög um öryrkja þar sem ekki var farið að þessum dómi og við erum eins að tala um skerðingu hvað varðar ellilífeyrisþega því verið er að gera greinarmun á einstaklingi og fólki, ellilífeyrisþegum, í sambúð.

Vissulega eru hér nokkrar bætur til ellilífeyrisþega og ég ætla ekki að gera lítið úr því. En með vísan til hæstaréttardómsins, þá er ekki verið að fara að þeim dómi. Það er alveg ljóst þar sem öryrkjar voru búnir að standa í málaferlum í mörg ár eða frá 1994, að ríkisstjórnin sem hafði tapað þeim málflutningi öllum fyrir Hæstarétti treystir sér ekki með sams konar mál fyrir dómstóla aftur. Miklu heppilegra er að beygja sig fyrir þeirri staðreynd að það sé álit Hæstaréttar að um samsvarandi hópa sé að ræða, þ.e. að þeir eigi að hafa samsvarandi bætur. Því er eðlilegt að sú tillaga komi frá ríkisstjórninni að bjóða ellilífeyrisþegum að fá samsvarandi bætur og öryrkjar frá 1. janúar.

Þá vil ég enn og aftur draga það fram að ekki er verið að bjóða samsvarandi bætur og dómur Hæstaréttar byggðist á því að samkvæmt honum var ekki farið að lögum, ekki var stoð fyrir þeirri reglugerð sem greiðslurnar byggðu á og sú reglugerð á jafnt við um ellilífeyrisþega og öryrkja. Því tel ég að þær bætur sem ellilífeyrisþegar eru að fá núna með frv. séu ekki nægilegar þar sem ekki var endurgreitt frá því að reglugerðin var sett og muni ekki standast fyrir dómi. En það verður þó a.m.k. skárra fyrir hæstv. ríkisstjórn að fá á sig hálfan skell en fullan.

Varðandi það atriði að vísað er til þess að samráð hafi verið á milli Félags eldri borgara eða fulltrúa þeirra og ríkisstjórnarinnar og þetta sé niðurstaða samráðs, þá hefur Félag eldri borgara engan samningsrétt. Á fundi hæstv. heilbr.- og trn. kom fram frá fulltrúum eldri borgara að svona samráðsfundir eru haldnir nokkrum sinnum á ári. Það var knýjandi fyrir eldri borgara að fá þennan samráðsfund til að kynna óskir sínar. Beiðni þeirra og óskir voru að farið væri alfarið að hæstaréttardómnum og þeir fengju ekki minna en öryrkjar hefðu fengið. Það var ekkert samkomulag. Þeim var tilkynnt að þetta væri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að svona skyldu þeirra bætur vera. Ég frábið mér og eldri borgurum þann málflutning að hér sé um samkomulag að ræða.

En vissulega líta eldri borgarar og við öll með ákveðinni eftirvæntingu til þeirrar endurskoðunar sem nú á sér stað á almannatryggingalöggjöfinni allri eins og hún er, að í þeirri endurskoðun komi frekari bætur til ellilífeyrisþega sem og annarra.

Löggjöfin er orðin stagbætt og torskilin fyrir allan almenning og fleiri. Það þarf orðið meira en sérfræðinga til að lesa saman greinar og átta sig á réttindum einstakra hópa og því er mikilvægt að heildarendurskoðun eigi sér stað. En því miður veit ég ekki hvort við getum verið mjög bjartsýn, alla vega tala ég svo fyrir mína hönd, á að andi þeirrar endurskoðunar verði í samræmi við niðurstöður hæstaréttardómsins, að sú grundvallarbreyting verði í lögunum og það verði sem rauður þráður í gegnum löggjöfina að gengið verði út frá rétti einstaklingsins.

Herra forseti. Mér finnst miður ef reynt er að gera lítið úr þeim viðhorfum sem kynnt voru í heilbr.- og trn. í morgun og dregin fram og ekki að ástæðulausu, að horfa þurfi til fleiri þátta þegar verið er að krukka í lög eins og hér er verið að gera, endurskoða lög, semja ný lög, að horfa þurfi til fleiri þátta en bara afmarka eins og gert er varðandi ellilífeyrisþegana núna. Vissulega eru ellilífeyrisþegar að fá bætur, satt er það. En gert er upp á milli einstaklinga og þeirra sem eru í sambúð. Stenst það? Getum við gert þetta svona? Einnig er verið að vísa til þess að löggjöf eins og þessi geti haft óbein áhrif varðandi jafnréttisregluna. Vegna þess hvernig aldurssamsetning þjóðarinnar er, þá muni ákveðnar reglur eins og þessi vera til hagsbóta fyrir annað kynið frekar en hitt. Þegar við erum að tala um skerðingarákvæði eða um almannatryggingabæturnar, þá lendir það oft frekar á konum af því það eru frekar konur en karlar sem eru öryrkjar, eru ellilífeyrisþegar og þiggja þessar bætur. Óbeint kemur þetta við konur frekar en karla. Þó að enginn kynjamunur sé, enginn munur í lagasetningunni sjálfri, þá verðum við auðvitað að horfa til þessa.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna, en mér finnst rétt að draga þetta fram og við í minni hlutanum munum ekki tefja málið. Við munum sitja hjá við afgreiðsluna og vísa alfarið allri ábyrgð á þessari lagasetningu yfir á ríkisstjórnina. En ástæðan fyrir því að við getum ekki greitt þessu atkvæði er í fyrsta lagi að ekki er verið að afnema að fullu skerðingu á tekjutryggingu vegna tekna maka. Ekki er verið að greiða ellilífeyrisþegum bætur aftur í tímann þó ekki væri nema þessi ár, fjögur eins og hjá öryrkjum eða sjö sem reglugerðin hafði ekki stoð í lögum. Og í þriðja lagi gagnrýnum við þá tímapressu sem málið er í, eins og mörg önnur stórmál sem að mínu mati þarf að vinna vel, t.d. að skoða samþættingu þessara breytinga. En ég ætla rétt að vona að þegar við fáum heildarlöggjöfina hingað inn í þingið eftir endurskoðun verði búið að vinna heimavinnuna og við fáum tækifæri til þess að skoða þá löggjöf með tilliti til annarrar löggjafar, m.a. með tilliti til jafnréttis, með tilliti til skatta og fleira sem hefur áhrif á kjör fólks.